140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

skattur á umhverfisvænt eldsneyti.

190. mál
[17:12]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir þessa umhverfisvænu spurningu. Það er mikilvægt eins og hv. þingmaður benti á að við horfum til langrar framtíðar. Ég verð var við það hjá fólki sem hefur horft til þess að umbreyta bifreiðum sínum þannig að þær verði umhverfisvænni, að það hefur haft á tilfinningunni að á næsta ári eða þarnæsta ári komi hin stóra krumla ríkisvaldsins og setji auknar álögur á það eldsneyti. Ég tel að við þurfum með einhverjum hætti að tryggja að menn séu öruggir í einhvern tíma með það að ríkissjóður eða ríkisvaldið fari ekki að leggja á auknar álögur með stuttum fyrirvara.

Hæstv. ráðherra nefndi umhverfisvæna orku og fleira og nú er dísilolían orðin um 12 krónum dýrari en bensínið. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort til standi (Forseti hringir.) af hans hálfu að reyna að snúa þeim hlutföllum við með einhverjum hætti í ljósi þess að dísillinn er mun umhverfisvænni.