140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

jöfnun kostnaðar við húshitun.

216. mál
[17:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég spyr hæstv. iðnaðarráðherra um jöfnun kostnaðar við húshitun sem hljóðar svo:

„Hvað líður aðgerðum til að jafna kostnað við húshitun?“

Þar fylgi ég eftir máli sem ég hef spurt hæstv. ráðherra út í áður. Í fyrra, þann 22. nóvember, spurði ég hæstv. ráðherra sömu spurningar. Þá var ljóst að 12–13 þús. íslensk heimili greiða miklu hærri fjárhæðir fyrir að hita húsnæði sitt en afgangur þjóðarinnar. Í raun og veru erum við að ræða um 30–40 þús. Íslendinga sem búa á hinum svokölluðu köldu svæðum, sem eru oftar en ekki mjög langt frá höfuðborgarsvæðinu, og þurfa því að verja heilmiklum fjármunum í eldsneytiskaup vegna flutningskostnaðar og út af þessum margumrædda kostnaði við að kynda hús sín.

Ég hef talað fyrir því og fært fyrir því nokkur rök, sem ég held að sé erfitt að hnekkja, að þessi heimili borgi hærri skatta. Það kostar þau meira að lifa venjubundnu lífi en aðra Íslendinga. Við höfum talað fyrir því að jafna eigi aðstæður fólksins í landinu til þess að lifa og þetta er ekki beint í samræmi við þá jafnaðarhugsun.

Það mundi heyrast í einhverjum ef tvær fjölskyldur í Reykjavík byggju í sama botnlanganum í svipuðu húsnæði og fólkið sem byggi hægra megin í götunni borgaði 200 þúsund í húshitunarkostnað á ári en fólkið á móti 400 þúsund. Það er einfaldlega um svo hróplegt ójafnræði að ræða. Hæstv. ráðherra svaraði því til í fyrra að hún væri í viðræðum og samráði við sveitarfélög á köldum svæðum. Hæstv. ráðherra sagði í fyrra, með leyfi frú forseta:

„Ef samráðið leiðir til þess að menn telji þann vettvang ekki duga til að ljúka þessu máli, að menn vilji frekar setja niður starfshóp, verður það svo. En vonandi tekst okkur, án þess að þurfa að setja sérstakan starfshóp á laggirnar, að ljúka þessu með þeim. Ég held að það sé aðalatriðið.“

Hér mælti hæstv. ráðherra af góðum hug. Nú inni ég hæstv. ráðherra eftir því hvort við förum að sjá það í náinni framtíð að menn jafni húshitunarkostnað í landinu til hagsbóta fyrir þær tugþúsundir Íslendinga sem þurfa að kynda hús sín á miklu hærra verði en aðrir (Forseti hringir.) landsmenn. Ég held að við getum sammælst um það hvar í flokki sem við stöndum.