140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

jöfnun kostnaðar við húshitun.

216. mál
[17:21]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa spurningu. Við deilum þeim prinsippum, ég og hv. þingmaður, að vilja leggja mikið á okkur til að ná fram þessum markmiðum í lífskjörum hvar sem menn búa á landinu.

Frá því við ræddum málið síðast hefur verið settur á laggirnar starfshópur sem ég minntist á og hv. þingmaður vitnaði til í svari mínu. Við ákváðum að fara þessa formlegu leið og fengum því líka fulltrúa frá fjármálaráðuneyti og öðrum aðilum sem þurfa að koma að þessu. Starfshópurinn var settur á laggirnar núna á vordögum í kjölfar funda ríkisstjórnarinnar á Ísafirði þann 5. apríl síðastliðinn. Þar var samþykkt að vinna að því með Samtökum sveitarfélaga á köldum svæðum að leita leiða til að lækka og jafna húshitunarkostnað. Í kjölfarið var starfshópurinn skipaður þar sem m.a. eiga sæti fjórir fulltrúar sveitarfélaga á köldum svæðum. Starfshópurinn mun skila tillögum á næstu dögum, en honum var falið verkefni samkvæmt erindisbréfi sem felst aðallega í fjórum þáttum.

Í fyrsta lagi að yfirfara lög um niðurgreiðslu vegna húshitunarkostnaðar og koma með tillögur til úrbóta varðandi framkvæmd laganna.

Í öðru lagi að setja fram tillögur um framkvæmd og fjármögnun niðurgreiðslna til húshitunar.

Í þriðja lagi gera tillögur um viðmið fyrir húshitunarkostnað.

Í fjórða lagi að yfirfara þær aðgerðir sem nú er beitt varðandi orkusparnað á köldum svæðum og koma fram með tillögur um frekari aðgerðir á því sviði.

Í þessum starfshópi sitja: Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkusetursins, sem er formaður nefndarinnar og skipaður af iðnaðarráðherra, Arnbjörn Sveinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Seyðisfjarðarkaupstaðar, Ása Ögmundsdóttir, lögfræðingur í fjármálaráðuneyti, Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri í sveitarfélaginu Hornafirði, Ingibjörg Sigmundsdóttir, stjórnarmaður hjá Rarik, Katrín Skúladóttir, sérfræðingur Orkubús Vestfjarða, Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ, og Ómar Már Jónsson, sveitarstjóri í Súðavíkurhreppi. Í hópnum er góð dreifing af fólki hvaðanæva af landinu. Ég lít svo á að við séum komin með einvala mannskap til að fara vandlega yfir þetta mál og skila tillögum og mun hann gera það á næstunni.

Einkum hefur verið að fjallað um tvo meginþætti. Það er í fyrsta lagi hvort rétt sé að ganga lengra en nú er gert varðandi jöfnun húshitunarkostnaðar af því nú nemur niðurgreiðslan um 60% af kostnaði við dreifingu og flutning. Verði þessi kostnaður niðurgreiddur að fullu er kostnaðurinn við þetta um 1.700 millj. kr., eða 500 milljónum hærri fjárhæð en nú er varið í þessu skyni á fjárlögum.

Eins og hv. þingmaður þekkir, sem fyrrverandi formaður fjárlaganefndar Alþingis, koma inn á borð fjárlaganefndar margvísleg verkefni og án efa þarf að taka ákvörðun um þetta þar. Það þarf ekki endilega að vera svo að menn taki þetta beint úr ríkissjóði vegna þess að starfshópurinn er að skoða hvort rétt sé að gera breytingar á því hvernig þessar aðgerðir eru fjármagnaðar. Menn hafa nálgast þetta með opnum huga og að meginstofninum til koma tvær leiðir til greina. Það er annars vegar að fjármagna niðurgreiðslurnar úr ríkissjóði, eins og ég nefndi, og hins vegar er hægt að finna jöfnunarleiðir í innheimtu á raforkukostnaði hjá notendum um land allt, þ.e. raforkukaupendum. Menn eru að skoða sérstakan jöfnunarsjóð og fleira í þeim efnum. En um þetta allt mun ég fá tillögur frá nefndinni sjálfri. Ég treysti nefndinni vel til þessara verkefna og síðan mun ég að sjálfsögðu eiga gott samstarf við Alþingi um það hvert framhaldið verður þegar tillögurnar liggja fyrir.