140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

jöfnun kostnaðar við húshitun.

216. mál
[17:25]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu og hv. fyrirspyrjanda fyrir að hefja hana.

Um er að ræða eitt stærsta byggðamálið sem við erum að fást við. Stundum hefur okkur gengið vel, stundum hefur okkur gengið illa. Ég ætla bara aðeins að vekja athygli á nokkrum tölum. Ég fékk svarað fyrirspurn í fyrra um þessi mál. Þar kom fram að árið 2000 var munurinn á húshitunarkostnaði í Reykjavík annars vegar og dreifbýli Rariks hins vegar um 65%. Árið 2009 var þessi munur orðinn þrefaldur. Eitthvað hefur dregið úr honum vegna hækkana hjá Orkuveitu Reykjavíkur en það breytir ekki málinu. Um er að ræða mjög tilfinnanlegan og erfiðan útgjaldalið heimila víða á landsbyggðinni.

Nú áformar ríkissjóður að taka upp verulega skattlagningu fyrir auðlindanotkun á orku. Ég tel þess vegna eðlilegt að nýta hluta af þeim fjármunum til að greiða þennan kostnað niður. Við erum að tala um 500 millj. kr. til þess að koma í veg fyrir að notendur á landsbyggðinni þurfi að bera þennan dreifingar- og flutningskostnað. (Forseti hringir.) Það finnst mér a.m.k. vera sanngjarnt upphafsskref. Ég hvet okkur öll til að sameinast um það að reyna að (Forseti hringir.) ljúka þessu máli þannig að hið mikla byggðamál sem við erum að ræða, sem kostar þó ekki meira en (Forseti hringir.) 500 millj. kr., verði í höfn.

(Forseti (ÞBack): Forseti biður hv. þingmenn að gæta að klukkunni.)