140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

virkjanir í Blöndu.

224. mál
[17:35]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir spurningarnar. Landsvirkjun hefur um þó nokkurt skeið haft til skoðunar frekari virkjanir í Blöndu og leitaði ég upplýsinga hjá fyrirtækinu í tilefni af fyrirspurn hv. þingmanns. Landsvirkjun vinnur nú að frumhönnun á þremur smávirkjunum í Blönduveitu sem nýta þá óvirkjað fall í veitulegu úr Blöndulóni niður í inntakslón virkjunarinnar sem heitir Gilsárlón.

Gert er ráð fyrir að uppsett afl verði 28 megavött og er áætlað að samanlögð orkugeta verði um 180 gígavattstundir á ári. Virkjað fall er um 64 metrar úr Blöndulóni í Gilsárlón, sem er inntakslón Blönduvirkjunar. Fyrirhugaðar virkjanir sem verið hafa til skoðunar eru þrjár: Sú efsta, Kolkuvirkjun, sem virkjar fallið úr Blöndulóni yfir í Þrístiklu og verður stöðvarhús hennar staðsett sunnan við Þrístiklu. Næsta er Fannlækjarvirkjun sem virkjar fallið frá Smalatjörn í Austara-Friðmundarvatn og verður stöðvarhúsið staðsett sunnan við vatnið. Sú þriðja er Gilsárvirkjun sem virkjar fallið frá Austara-Friðmundarvatni niður í Gilsárlón og verður stöðvarhúsið staðsett mitt á milli Gilsárlóns og Austara-Friðmundarvatns.

Á næsta ári áformar Landsvirkjun að halda áfram nauðsynlegum rannsóknum og verkfræðilegum undirbúningi auk vinnu við mat á umhverfisáhrifum. Það er mögulegt að hefja virkjunarframkvæmdir á seinni hluta árs 2013 og gangsetja þá virkjanirnar á seinni hluta árs 2016. Núverandi útfærsla á virkjunum í Blönduveitu er raðað í orkunýtingarflokk, eins og áður kom fram hjá hv. þingmanni, í tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða sem við stefnum að að leggja fram í endanlegri mynd í þingsályktunartillögu fyrir jól. Þar kemur fram í töflu C2 í skýrslu verkefnisstjórnar rammaáætlunar sem skilað var til okkar 5. júlí síðastliðinn að Blönduveitu er raðað í sæti 2 frá sjónarhóli nýtingar og sæti 65 af sjónarhóli verndar.

Samkvæmt könnun sem er fylgigagn með þeim pappírum sem til okkar var skilað röðuðu allir tólf meðlimir verkefnisstjórnar Blönduveitu í orkunýtingarflokk. Það var því alger samstaða um það innan verkefnisstjórnarinnar að raða henni í þann flokk. Að öðru leyti má segja um þessa framkvæmd að framgangur virkjana í Blönduveitu mun ráðast af afgreiðslu Alþingis á tillögunni nú á vordögum.

Það sem dregið er fram hér og má þakka hv. þingmanni fyrir að nefna, er að það eru fjölmargir kostir til að auka og bæta nýtingu á þeim virkjunum sem þegar eru til staðar. Það eru ekki bara tækifæri þarna heldur horfa menn líka til stækkunar Búrfellsvirkjunar, að hugsanlega megi auka orkugetu kerfisins um 208 gígavattstundir á ári í gegnum ákveðnar framkvæmdir á þeirri virkjun, sem gæti verið jákvætt. Einnig er verið að skoða aðra kosti sem aukið geta reiðuafl í kerfinu og má þar nefna að ef bætt yrði við einni vél við Sigöldustöð mætti fá þar um 50 megavött, sömuleiðis við Hrauneyjarfossstöð, þar gæti ein vél gefið um 70 megavött.

Einnig má benda á að ef álag á Sultartangavirkjun væri aukið gæti nýtingin aukist um 10 megavött. Víða í gömlu virkjununum, þ.e. þeim virkjunum sem tryggt hafa okkur raforku hingað til, er fjöldinn allur af tækifærum sem menn eru að skoða núna og gætu verið góðir kostir fyrir okkur. Blönduveita gæti því verið upphafið að því menn færu í gegnum þessar virkjanir með þeim hætti sem ég nefni hér, og bæti við afli á þeim stöðum sem við nýtum nú þegar til raforkuframleiðslu.