140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

sjálfstæði Háskólans á Akureyri.

150. mál
[17:47]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir þessa fyrirspurn. Eins og hann benti á ræddum við einmitt um stöðu Háskólans á Akureyri líklega í fyrra, það er rétt. Ég get í raun og veru endurtekið það sem mig minnir að ég hafi sagt þá og tek undir með hv. þingmanni að Háskólinn á Akureyri hefur auðvitað mjög mikilvægu hlutverki að gegna, ekki síst í fjarnámi og fjarkennslu þar sem hann hefur verið brautryðjandi á mörgum sviðum og hefur skipt mjög miklu máli hvað varðar menntun margra í hinum dreifðari byggðum.

Eins og hv. þingmanni er kunnugt höfum við verið með málefni háskólanna til skoðunar í ráðuneytinu og til umræðu í þessum sal allt frá hruni og ekki sjaldan er rætt um sameiningar háskóla. Ég veit að meðal annars hefur talsvert verið rætt um sameiningar núna þegar horft hefur verið á fjárlög fyrir næsta ár. Ég hef hins vegar ávallt sagt að sameiningar skila ekki endilega sparnaði. Þær geta verið æskilegar, þær geta skilað sparnaði og skilað öflugri stofnunum en þær eru ekki sjálfgefið hið eina rétta svar, ekki síst þegar um er að ræða mjög ólíkar stofnanir eins og raunin er um íslensku háskólana.

Við höfum hins vegar gefið út formlega stefnu um opinbera háskóla sem snýr að því að koma á laggirnar samstarfsneti. Samningur um slíkt samstarfsnet var undirritaður þann 9. maí 2010. Ég held reyndar að þetta hafi ekki verið 2010, ég held að þetta hafi verið 2011, ég biðst velvirðingar. Ég er, eins og hv. þingmaður benti á, tiltölulega nýkomin til starfa og er aðeins rugluð í ártölum, en það var sem sagt í vor að samningur var undirritaður um samstarfsnet allra þessara opinberu háskóla.

Til upprifjunar minni ég á að markmiðið er að efla háskólakennslu, rannsóknir og nýsköpun til styrktar framtíðaruppbyggingu íslensks samfélags, hagræða í rekstri háskóla þannig að fjármunirnir nýtist sem best og í þriðja lagi að halda uppi öflugri og fjölbreyttri háskólastarfsemi víðs vegar á landinu. Þetta verkefni höfum við einfaldlega kallað háskólanetið. Við höfum margar fyrirmyndir til að líta til þar sem háskólar starfa saman undir einum hatti eða einni regnhlíf og sameinast m.a. um ýmsa stoðþjónustu og annað slíkt. Ég nefni sem dæmi að mjög margir öflugir háskólar í Kaliforníu starfa undir einum hatti sem einfaldlega heitir Kaliforníuháskóli og þar undir eru margir fremstu háskólar heimsins.

Samningurinn sem ég nefndi áðan sem undirritaður var í vor snýst um sameiginlegt upplýsingakerfi fyrir nemendur og kennslu og samræmt fræðilegt hæfnismat starfsmanna, en frammistaða í slíku mati hefur ákveðið vægi um ráðningar, framgang og launabreytingar. Það hefur ekki verið við lýði hingað til í þessum háskólum sem er í sjálfu sér merkilegt. Stefnt er síðan að því að víkka út samninginn og horfa til gæðaviðmiða og það verður væntanlega auðveldara nú þegar búið er að koma á gæðaráði alþjóðlegra sérfræðinga sem líka var sett á laggirnar í fyrra. Ráðið hefur þegar hafið störf og starfar nú af fullum krafti við gæðamat á háskólum. Þegar kemur að meistara- og doktorsnámi sjáum við líka fram á aukið samstarf skólanna en einnig með stuðningi við kennara, kennslufræðilegri ráðgjöf, þjálfun og ýmsu fleira þar sem við teljum að megi ná betri árangri með því að skólarnir vinni saman.

Í þessum málum vinna háskólarnir fyrst og fremst með hagsmuni nemenda í huga. Ég nefni sem dæmi að eitt af markmiðunum er að nemendur geti sótt námskeið á milli skóla með auðveldari hætti en verið hefur og þannig verði hugsanlega hægt að bjóða fjölbreyttara nám. Þetta er því í raun og veru stóra málið og ég hef sagt að hugsanlega geti þetta leitt til sameiningar einhverra stofnana ef við metum það sem rétt skref. Stóra málið er að skólarnir vinni saman, að við eflum þetta samræmda kerfi okkar því að það er til hagsbóta fyrir íslenskt háskólasamfélag.

Ég get að lokum sagt um Háskólann á Akureyri að ég hef engar fyrirætlanir nú um að fara út í sameiningu eða að sameina Háskólann á Akureyri öðrum skólum undir einhverjum öðrum hatti, því að mér fannst hv. þingmaður fyrst og fremst vera að spyrja um hvort stjórn Háskólans á Akureyri yrði áfram á Akureyri. Það eru engar fyrirætlanir um neitt annað. Ég legg hins vegar áherslu á að Háskólinn á Akureyri taki þátt í samstarfsnetinu á þeim forsendum sem ég hef lýst hér og mér finnst þetta vera þær forsendur sem við eigum að vinna að til að efla háskólasamfélagið. Þetta snýst um fjölbreytni í námsframboði þar sem fólk leggur saman krafta sína og getur í rauninni kannski fengið meira með því að sameina þá. Þar hefur Háskólinn á Akureyri, leyfi ég mér að segja að lokum, ekki bara tekið fullan þátt heldur verið mjög áhugasamur og oft tekið forustuna í ýmsum málum sem þar hafa komið á borð þannig að mér hefur ekki sýnst annað en að það gangi mjög vel.