140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

sjálfstæði Háskólans á Akureyri.

150. mál
[17:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra og þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls um málefni Háskólans á Akureyri. Ég fagna þessum samhljómi gagnvart þeirri stofnun sem háskólinn er, vagga háskólamenntunar á landsbyggðinni.

Við þekkjum það mörg sem höfum unnið að fjárlagagerð og horft upp á það hvernig ýmsar stofnanir ríkisins hafa hagað störfum sínum þegar niðurskurðarhnífnum er beitt, að það er einfaldlega þannig að auðveldara er að skera niður starfsemi á einhverri stofnun sem er fjarri höfuðstöðvunum en hjá manninum sem á skrifstofuna við hliðina á forstjóranum. Það er einfaldlega þannig.

Allt frá upphafi hafa menn því talað fyrir mikilvægi þess að forræði yfir málefnum Háskólans á Akureyri sé þar þannig að fólk í nærumhverfinu forgangsraði þeim fjármunum sem skólanum er veitt á hverju ári. Ég fagna því að hér sé mikill samhljómur um að viðhalda þeirri stöðu en ég tek líka undir með hæstv. ráðherra að mikilvægt er efla samvinnu og samstarf á milli háskólanna í landinu, sem eru óneitanlega fjölmargir, og að við aukum með því fagleg gæði háskólanna hér á landi sem eru náttúrlega í samkeppni við aðrar háskólastofnanir, m.a. í Evrópu og fyrir vestan haf, þannig að Ísland haldi stöðu sinni og bæti í raun og veru stöðu sína þegar kemur að háskólamenntun hér á landi. Ég tel að þessum málum sé ágætlega fyrir komið. Það er mikilvægt að við höldum þessari breiðu samstöðu og höldum líka á lofti upplýsandi umræðu um hversu miklu Háskólinn á Akureyri hefur skilað í þágu lands og þjóðar á undangengnum árum og þá ekki síst í málefnum landsbyggðarinnar.