140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

verknámshús við Fjölbrautaskóla Suðurlands.

231. mál
[18:02]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það liggur fyrir að fyrirhugað er verknámshús við Fjölbrautaskóla Suðurlands og þetta er verkefni sem við í ráðuneytinu höfum tekið til skoðunar. Svo ég segi það strax höfum við litið það jákvæðum augum, enda liggur fyrir að þörf er fyrir þessa byggingu og við teljum að þetta sé gott verkefni. Þegar kemur að stofnkostnaði framkvæmda sem við höfum haft á okkar könnu í ráðuneyti mennta- og menningarmála má hins vegar sjá að þær hafa verið skornar talsvert niður og af þeim sökum höfum við ekki getað farið af stað með mjög mörg æskileg verkefni, nýbyggingar og stofnkostnaðarframkvæmdir. Ég get nefnt sem dæmi Hús íslenskra fræða og fleiri byggingar sem við höfum haft fyrirætlanir um að byggja.

Hafandi sagt þetta vil ég fara aðeins yfir þetta verkefni sérstaklega. Það liggur fyrir frumathugun á þörfinni og hún gerir ráð fyrir að byggja þurfi u.þ.b. 1.600 fermetra hús sem kostar nálægt 600 millj. kr. Við undirbúning fjárlaga 2012 vorum við með beiðni um að veitt yrði fjárframlag til upphafsframkvæmda við verknámshús en eftir á að skoða enn þá við vinnslu fjárlaga núna fyrir 2. umr. hvaða stofnkostnaðarframkvæmdir verða í raun og veru ofan á. En svo því sé til haga haldið höfum við haldið þessari framkvæmd vakandi í þeirri vinnu.

Til að fólk átti sig á fyrirkomulaginu er hluti ríkisins í kostnaði við framkvæmdina 60%, eða u.þ.b. 360 millj. miðað við að þessi kostnaðaráætlun standist. Við lítum svo á að fjárveiting á fjárlögum sé forsenda þess að gera megi samning um verkið og hefja í raun næsta þátt þess sem er hin eiginlega hönnun hússins og gerð framkvæmda- og kostnaðaráætlunar.

Eins og hv. þingmaður nefndi hafa þau sveitarfélög sem standa að Fjölbrautaskóla Suðurlands lagt til hliðar fé til að mæta hluta af kostnaði þeirra við framkvæmdirnar og því væri að sjálfsögðu æskilegt að geta farið af stað með verkið á næsta ári. En eins og ég sagði áðan verður það metið við vinnslu fjárlaga þegar stofnkostnaðarframkvæmdir verða skoðaðar. Þá hef ég lagt á það áherslu að þetta má að sjálfsögðu gera í áföngum, að hefja fyrst hönnun og fara síðan í framkvæmdir hugsanlega til þriggja til fjögurra ára.

Ég lít svo á, til að svara spurningu hv. þingmanns eins vel og ég get svarað henni á þessu stigi, að við höfum litið þetta verkefni mjög jákvæðum augum og vonumst til að þess muni sjá stað við endanleg fjárlög núna.