140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

verknámshús við Fjölbrautaskóla Suðurlands.

231. mál
[18:05]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með fyrirspyrjanda um að allt mælir með þessu verkefni og hefur lengi gert, 20/20 áætlunin, sveitarfélögin, samstaðan í héraði, og ekki síst eins og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra nefndi áðan um fjárfestingu í starfsnámi og þessu mikilvæga verkefni, sem allt mælir með að verði farið í. Sveitarfélögin hafa lagt 140 millj. í sjóð sem er hægt að leysa út þegar fyrstu fjárlög koma frá ríkinu. Auðvitað þarf að ljúka gerð áætlunar. Meirihlutaálit allsherjar- og menntamálanefndar mun mæla sérstaklega með þessu í áliti sínu til fjárlaga. Ég get staðfest það sem fjárlaganefndarmaður að við erum að vinna að því að skilgreina hversu hátt fyrsta framlag ríkisins til verkefnisins verði fyrir 2. umr. fjárlaga sem er áætluð í lok nóvember. Samkvæmt áætlunum skólans sjálfs og sveitarfélaganna er gert ráð fyrir þessu í þremur áföngum. Gerð er tillaga um 25 millj. kr. framlag fyrst þannig að hægt sé að hefja hönnun, síðan í tvennu eða þrennu lagi í lokin og við vinnum út frá þessu. Þetta mun koma í ljós eins og hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra sagði þegar við greiðum atkvæði um fjárlögin við 2. umr.