140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

verknámshús við Fjölbrautaskóla Suðurlands.

231. mál
[18:08]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir svör hæstv. ráðherra og þeirra þingmanna sem tóku þátt í umræðunni.

Það var mjög jákvætt að heyra frá ráðherranum að ráðuneytið lítur þessa framkvæmd jákvæðum augum og ég vænti þess að ráðherra muni gera sitt til að tryggja að það komi fjárveiting vegna hennar inn í fjárlög fyrir 2. umr.

Ég ætla líka segja að það er mjög jákvætt að 1. þingmaður Suðurkjördæmis skuli koma hér upp sem nefndarmaður í fjárlaganefnd og líka sem formaður allsherjar- og menntamálanefndar og leggja svo mikla áherslu á að sett verði fjárveiting í þetta verkefni fyrir árið 2012.

Ég vil líka benda á, þó að ég hafi ekki nefnt það ekki í framsögu minni, að það hefur verið umtalsvert atvinnuleysi í byggingargeiranum einmitt á þessu svæði og allt of oft höfum við þurft að horfa upp á það að annar makinn hefur þurft að fara jafnvel af landi brott til að vinna fyrir sér. Þannig að hugtakið „fjarbúð“ hefur orðið æ algengara í þessu byggðarlagi sem stafar auðvitað fyrst og fremst af því algjöra hruni sem varð í byggingargeiranum á svæðinu. Og þó að maður vilji líta fram á við og vera bjartsýnn og benda á mikilvægi verkmenntagreinanna fyrir framtíðina er þetta líka mjög mikilvægt fyrir nútíðina til að tryggja störf í byggingargeiranum á þessu svæði. Ég vonast því til að við getum farið af stað með þetta verkefni á næsta ári og klárað það eins og hér er verið að leggja til helst árið 2014 eða 2015.