140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

ullarvinnsla og samvinnufélög.

49. mál
[18:19]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Forseti. Ég fagna þessari fram komnu fyrirspurn og svari hæstv. ráðherra. Ég vil benda á að til er vel rekið fyrirtæki sem heitir Ístex. Það er, eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra, í eigu bænda og starfsmanna Ístex. Hjá Ístex fer fram tvenns konar vinnsla, söfnun ullar og þvottur á Blönduósi og síðan er ullin unnin í Mosfellsbæ, þar sem bæði er litað, spunnið og hannað. Í ljósi þeirrar fyrirspurnar sem hér er lögð fram um að ráðherra ætti sjálfur að hvetja bændur eða aðra til að stofna félög teldi ég vænlegra að stutt væri við þá starfsemi sem þegar er í gangi, henni kannski ýtt betur úr vör frekar en fara að keyra inn önnur fyrirtæki samhliða. Við höfðum áður Gefjun og Álafoss. Þau fóru eins og þau fóru. Hér er blómlegt fyrirtæki. Styðjum við það sem fyrir er en förum ekki að koma með afskipti ríkisins inn í málin á nýjan leik.