140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

ullarvinnsla og samvinnufélög.

49. mál
[18:21]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þann jákvæða tón sem fram kom í svörum hans gagnvart ullarvinnslu, og ég held ég hafi greint það líka hvað varðar samvinnufélög.

Ég vil einnig þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir innlegg hennar í þessa umræðu. Ég vil hins vegar aðeins svara því sem þar kom fram. Ég er þeirrar skoðunar að ríkið hafi gert sitt til að styðja við hlutafélög og einkahlutafélög með því að skapa hagkvæmara skattumhverfi og ákveðna hvatningu hvað það rekstrarform varðar. Það er löngu tímabært að endurskoða löggjöfina hvað varðar samvinnufélög og að vinna áfram með þá hugmyndafræði sem liggur að baki þeim. Því meira sem þú leggur inn, í tilfelli bænda væri það ullin, þeim mun meira færðu út, framleiðslan mundi þá raunar tryggja að þú ættir að geta fengið meira fyrir það.

Ég vil líka benda á að til staðar var ákveðið lagaumhverfi varðandi samhæft ullarmat. Ég mundi gjarnan vilja heyra betur frá ráðherranum hvort hann telur ástæðu til að taka slíkt mat upp aftur. Ég ítreka líka hvort mögulegt sé að taka upp samstarf við iðnaðarráðuneytið varðandi vöruþróun og vinnslu á ullinni. Starfsmaður Ístex lagði í samtali við mig megináherslu á það að ef við ætluðum að auka verðmætasköpun af ullinni þá skipti mjög miklu máli að við ynnum sem mest úr henni sjálf, (Forseti hringir.) fatnað eða annað sem við gætum selt til útflutnings eða þá innan lands til ferðamanna.