140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

Bjargráðasjóður.

211. mál
[18:35]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hann gaf og einnig fínar ábendingar hv. þm. Eyglóar Harðardóttur. Það er mikilvægt að við höldum þessari umræðu við og þó að náttúruhamfarirnar séu vonandi um garð gengnar þá eru eftirköstin allnokkur og fullt af verkefnum sem verða auðvitað aldrei bætt og snúa að stöðugu öskufoki og endalausum þrifum á alls kyns húsum, tækjum og öðru slíku.

Það er líka þakkarvert að þau viðbrögð sem stjórnvöld sýndu og allir aðilar sem að málum komu voru fumlaus og gengu hratt fyrir sig. Menn gátu síðan nýtt reynslu af gosinu sem varð undir Eyjafjöllum á gossvæðunum þegar gaus í Vatnajökli.

Ég ítreka þær fyrirspurnir sem mér fannst út af standa hjá ráðherranum. Það var ágæt skilgreining á þeim verkefnum sem Bjargráðasjóður hefur farið í eftir reglugerðarsmíð og eftir vinnureglum sem ráðuneytið og hæstv. ráðherra setti, en akkúrat þar standa þá einhver verkefni út af. Og þá er spurningin: Hvað á að gera við þau? Það er auðvitað ólíðandi að lagfæringar við vatnsból sem skemmdust og menn hafa þurft að fara í umfangsmiklar framkvæmdir við að lagfæra séu einungis styrktar að því leyti að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga komið þar að, ég held að það séu um 40% sem hann styrkir eða allt að því. En síðan er hluti af framkvæmdum sem mistókust og þar af leiðandi fellur 100% á viðkomandi býli og eftir stendur ekkert vatn og það er óleysanlegt vandamál.