140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

staðfesting á aðalskipulagi Skaftárhrepps.

139. mál
[18:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég varpa fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra um staðfestingu á aðalskipulagi Skaftárhrepps. Eins og ég kom inn á í umræðunni áðan um afleiðingarnar á gossvæðunum, m.a. í Skaftárhreppi, er þetta viðkvæmt sveitarfélag. Á þrettán ára tímabili, frá 1998–2011, fækkaði fólki þar úr tæplega 600 niður í tæplega 450 eða um 150 manns, þ.e. 25% fækkun. Þar er byggðin líka farin að eldast og mjög mikilvægt er að þarna sé tekið á til framtíðar og menn hafi framtíðarsýn um það hvernig þeir ætli að byggja upp það samfélag.

Sveitarstjórnin hefur — og það kom fram í þeirri viku sem ég nefndi áðan, kjördæmavikunni, þar sem við fórum um svæðið — lagt gríðarlega mikla vinnu í að sætta ólík sjónarmið. Á kjörtímabilinu þar á undan varð mikill ágreiningur í samfélaginu um skipulagið og snerist hann eins og oft áður um vernd og nýtingu svæða ýmist til virkjanakosta, náttúruverndar eða friðlýsingar. Ég veit til þess að þetta hafi verið unnið að talsverðu leyti og miklu leyti í samstarfi við ríkisstofnanir, umhverfisráðuneyti, umhverfisstofnanir og aðra þá aðila, m.a. hvað snerti samning um Skaftá, vatnsmiðlun og fleira sem þar var í gangi og var unnið að fyrir ári og náðist að lokum niðurstaða um það. Að því er virtist lá aðalskipulagið að einhverju leyti undir líka.

Það er því nokkuð sérkennilegt að við höfum horft margsinnis á það núna á tímabili umræðunnar um rammaáætlun, um vernd og nýtingu, að ekki er hægt að virkja einn einasta hlut í landinu af því að við erum alltaf að bíða eftir niðurstöðunni um vernd og nýtingu og margir geta orðið ásáttir um það. En það hefur aftur á móti tekist að friðlýsa fullt af hlutum á sama tíma. Ekki hefur þurft að bíða eftir niðurstöðu um rammaáætlun um það.

Hins vegar náðist samkomulag í samfélaginu við m.a. umhverfisráðherra um að friðlýsa Langasjó og Eldgjá og það var gert í sumar, allt í einu. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra af hverju það var tilkynnt á föstudegi fyrir verslunarmannahelgi. Af hverju var ekki beðið eftir niðurstöðu rammaáætlunar? Af hverju var ekki beðið eftir að ganga frá aðalskipulaginu um leið? Af hverju var aðalskipulagið ekki staðfest þá og af hverju var ekki gert meira úr þeirri merkisfriðlýsingu, sem hún sannarlega er, að friða Langasjó og hluta af Eldgjá?

Mér finnst að skort hafi á skilning stjórnvalda, og þá í þessu tilviki hæstv. umhverfisráðherra, að þetta (Forseti hringir.) svæði þurfi á verulegum stuðningi að halda. Það samfélag má ekki upplifa það þannig að það þurfi að ströggla og berjast við ríkisvaldið.