140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

fyrirhugaðar framkvæmdir við snjóflóðavarnir í Siglufirði.

171. mál
[18:54]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Herra forseti. Ég endurtek fyrirspurn sem ég átti við hæstv. ráðherra umhverfismála í fyrra og snertir snjóflóðavarnir í Siglufirði. Þannig er mál með vexti að miklar framkvæmdir hafa átt sér stað á undangengnum árum til að verja byggðina í Siglufirði og auka öryggi íbúanna þar gagnvart snjóflóðum. Hins vegar hefur hægst á framkvæmdum og þegar ég spurði hæstv. ráðherra í fyrra varðandi framkvæmdir annars vegar í Neskaupstað og á Ísafirði og hins vegar í Siglufirði kom fram að hæstv. ráðherra boðaði að farið yrði í framkvæmdir fyrir austan og fyrir vestan en ekki að sinni á Siglufirði.

Þess vegna endurtek ég þá fyrirspurn til hæstv. ráðherra hvað líði fyrirhuguðum framkvæmdum við snjóflóðavarnir þar í bæ vegna þess að fyrir utan öryggisþáttinn sem ég set náttúrlega nr. eitt, tvö og þrjú á oddinn í þessu máli, eru bæjaryfirvöld að skipuleggja svæðið niðri á eyri við höfnina sem lýtur að mjög umfangsmikilli og metnaðarfullri uppbyggingu ferðaþjónustu. Þar hefur fyrirtækið Rauðka sett hundruð milljóna í uppbyggingu ferðaþjónustu í bænum og ætlar sér, ef áform ganga eftir, að byggja upp hótel niður við höfn sem væri framkvæmd upp á hátt í einn milljarð hef ég heyrt auk annarra umsvifa sem kæmu í framhaldinu. Ef ekki verður farið í gerð ofanflóðavarna við Siglufjörð verður því miður ekki hægt að ráðast í þessar framkvæmdir. Hér er um gríðarlega mikilvægt mál í atvinnulegu tilliti að ræða á þessum stað fyrir utan að ofanflóðasjóður er vel bólginn af fjármunum sem koma vegna skyldutrygginga, úr brunatryggingum landsmanna. Hlutverk hans á að vera að auka öryggi íbúa og einnig atvinnulífs í viðkomandi byggðarlögum.

Það er mjög mikilvægt upp á framhald málsins að ráðist verði í áframhaldandi framkvæmdir við snjóflóðavarnir í firðinum og bæjaryfirvöld í Fjallabyggð hafa reynt að ýta mjög á það að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir því. Það er ekki búið að klára það mál og hér er því í raun og veru ekki um nýja framkvæmd að ræða. Við erum að ræða um upptakastoðvirki í Fífladölum norður eins og framkvæmdin hefur verið kölluð. Nú beini ég þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort hún sé reiðubúin að leggjast á sveif með heimamönnum í þessu mikilvæga öryggismáli en líka mikilvæga uppbyggingarmáli fyrir sveitarfélagið, Eyjafjarðarsvæðið og Norðurland í (Forseti hringir.) heild sinni, hvort hún sé tilbúin til að beita sér fyrir því að af þessum framkvæmdum verði.