140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

fyrirhugaðar framkvæmdir við snjóflóðavarnir í Siglufirði.

171. mál
[18:57]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa spurningu og að vekja máls á þessu mikilvæga efni. Eins og hv. þingmanni er kunnugt hefur sveitarfélagið Siglufjörður, nú Fjallabyggð, með stuðningi ofanflóðasjóðs unnið að margvíslegum framkvæmdum við snjóflóðavarnir á Siglufirði og í Ólafsfirði síðastliðinn áratug. Síðast voru varnargarðar ofan við bæinn á Siglufirði vígðir 7. júlí 2009. Þessir garðar voru flestir nefndir „ríplar“ með ýmsum forskeytum og einn þeirra Kálfur af örnefnafélaginu sem starfar á Siglufirði eins og fyrirspyrjanda er vafalaust kunnugt. Áður voru gerðir leiðigarðar sem nefnast Stóri boli og Litli boli og upptakastoðvirki í Gróuskarðshnjúki.

Framkvæmdir við ofanflóðavarnir hafa staðið yfir í á annan áratug víðs vegar um land og gera áætlanir ofanflóðanefndar ráð fyrir því að því verkefni sem ákveðið var að ofanflóðasjóður mundi styðja sveitarfélögin til megi ljúka innan tíu ára. Upprunalegar áætlanir sem voru unnar í samráði við ofanflóðanefndar og viðkomandi sveitarfélaga á þessum tíma gerðu ráð fyrir að þessum framkvæmdum yrði hægt að ljúka á árinu 2010.

Tvennt kemur til að áætluðum lokum framkvæmda hefur seinkað. Annars vegar eru framkvæmdir heldur umfangsmeiri og á fleiri stöðum en gert var ráð fyrir í upphafi og hins vegar hefur ofanflóðasjóður þurft að hægja á stuðningi sínum við þessar framkvæmdir síðastliðin átta ár, ýmist í þeim tilgangi að draga úr þenslu í þjóðfélaginu eða til að lækka opinber útgjöld.

Ofanflóðanefnd hefur styrkt framkvæmdir við ofanflóðavarnir á vegum eftirtalinna sveitarfélaga: Snæfellsbær, Vesturbyggð, Bolungarvík, Flateyri, þ.e. Flateyri og Ísafjörður, Súðavík, Fjallabyggð sem eru Siglufjörður og Ólafsfjörður, Eyjafjarðarsveit, Seyðisfjörður og Fjarðabyggð, þ.e. Neskaupstaður. Nú standa yfir framkvæmdir í Bolungarvík, á Ísafirði, í Ólafsfirði í Fjallabyggð og í Neskaupstað í Fjarðabyggð.

Framkvæmdum við upptakastoðvirki ofan ríplanna á Siglufirði er ólokið eins og kom fram í fyrirspurn. Um er að ræða mjög umfangsmiklar framkvæmdir. Í samræmi við óskir sveitarstjórnar í Fjallabyggð gera nýjustu áætlanir ofanflóðanefndar ráð fyrir að næstu verkefni við varnir verði gerð upptakastoðvirkja á svæðinu Fífladalir norður. Það er von ofanflóðanefndar að unnt verði að hefjast handa við þessar framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins með stuðningi ofanflóðasjóðs strax á árinu 2013. Mér þykir auðvitað rétt að minna á að allar áætlanir ofanflóðanefndar, þessi sem aðrar, eru gerðar með fyrirvara um fjárheimildir í fjárlögum, en ég stend með þeim.