140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

fyrirhugaðar framkvæmdir við snjóflóðavarnir í Siglufirði.

171. mál
[19:01]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra tveggja spurninga. Eins og kom fram í máli hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, en ég þakka fyrir ágæta fyrirspurn hans, er ofanflóðasjóður bólginn af fé. Ég vil fyrst spyrja hvort ráðherra sé kunnugt um hversu miklir fjármunir eru til í þeim sjóði sem hægt væri að nýta. Í máli ráðherrans kom fram, herra forseti, að sjóðurinn hefði oft dregið úr starfsemi sinni vegna þenslu í samfélaginu. Nú er akkúrat hið gagnstæða uppi og þess vegna ætti auðvitað að nýta þennan pening í uppbyggingu sem víðast og sem hraðast.

Hin spurningin snýr að því að við erum með ofanflóðasjóð og skyldutryggingar en við verðum líka fyrir flóðum úr annarri átt, þ.e. af sjó og því þarf sjóvarnir. Um sjóvarnir gilda allt aðrar reglur. Sveitarfélögin þurfa að taka miklu meiri þátt í kostnaði við þær og ég vil spyrja hvort ráðherra hafi eitthvað skoðað það að bera þetta tvennt saman.