140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

fráveitumál sveitarfélaga.

172. mál
[19:14]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir þessa fyrirspurn, sem er brýn, og hæstv. ráðherra fyrir upplýsandi svör.

Eins og hæstv. ráðherra kom inn á voru þessi lög í gildi, þ.e. stuðningur við sveitarfélögin af hálfu ríkisins, nánast alveg fram undir hrun má segja. Þannig er mál með vexti að góðærið fór ekki víða, a.m.k. var mikið góðæri á suðvesturhorni landsins — maður sá það í ársreikningum sveitarfélaga sem skýrir það kannski hvers vegna sveitarfélögin þar gátu farið í þær framkvæmdir á því tímabili. Á sama tíma voru mörg sveitarfélög vítt og breitt um landið að heyja mjög harða varnarbaráttu þar sem fólki fækkaði og tekjustofnar drógust saman. Ég tel að það þurfi að horfa á þetta mál í því samhengi.

Það er gott ef menn ætla að ræða þetta mál. Þetta er ákveðið ímyndarmál fyrir mörg sveitarfélög þannig (Forseti hringir.) að ég tel að hér séum við að hefja umræðu um mál sem við þurfum að leysa með einhverjum hætti.