140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég kem hér upp í annað skipti á stuttum tíma til að kvarta yfir ófullnægjandi svörum sem ég fæ frá ráðherrum við skriflegum fyrirspurnum. Ég spurði efnahags- og viðskiptaráðherra um uppgjör á gengistryggðum lánum bæði fyrirtækja og einstaklinga. Stutta svarið er að ráðherra veit það ekki. Þessi ráðherra setti hér afturvirk lög og það er lágmark að hægt sé að mæla áhrif þeirra á heimilin og fyrirtækin í landinu. Þetta er lagasetning sem hefur komið sérstaklega illa út fyrir mörg heimili í landinu. Þetta er vissulega flókið mál og ráðherrann hefur sjálfur lýst því yfir í útvarpsviðtali að hann sé alltaf eins og hálfviti þegar hann er að reyna að skilja þessa útreikninga, en maðurinn er efnahags- og viðskiptaráðherra og það er ekki í boði að geta ekki svarað þessari spurningu. Þjóðin á betra skilið.

Forseti. Ég krefst þess að þú beitir þér fyrir því að þessum spurningum verði svarað með viðunandi hætti. Annars þarf kannski að skipta um fólk í brúnni.