140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Ég gat ekki betur heyrt á ræðu hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur þegar hún las upp úr kosningabæklingi framsóknarmanna fyrir kosningarnar 2009 en að það besta sem gæti gerst væri að sá draumur yrði að veruleika. Mér heyrðist það, það var nákvæmlega sú lýsing, en staðreyndin — (Gripið fram í: Stefna Framsóknarflokksins.) Já, stefnu Framsóknarflokksins, ég get tekið undir það.

Ég kem upp til að ræða einmitt þau mistök sem hafa orðið í endurreisn bankanna. Við verðum hreinlega að viðurkenna að hún hefur mistekist. Það hefur komið hér fram og á forsíðu Morgunblaðsins í dag er fjallað um að kröfuhafar njóti ágóðans í bönkunum, að erlendir vogunarsjóðir fái um 76 milljarða á meðan 30 milljarðar verði til virðisauka í nýja bankanum. Þetta eru upplýsingar frá Fjármálaeftirlitinu. Við erum búin að biðja um þessar upplýsingar alveg frá því að bankarnir voru einkavæddir og færðir yfir til vogunarsjóðanna en höfum aldrei fengið. Nú er það þó viðurkennt af Fjármálaeftirlitinu að vogunarsjóðirnir eigi meira en 60% í tveimur stórum bönkum.

Við hljótum að spyrja okkur: Hvað gerðum við rangt? Það getur ekki verið að nægileg réttlæting sé fólgin í því að segja að með þessum hætti hafi ríkið sloppið við að setja meira eigið fé inn í bankana. Það verður bara að viðurkennast að samningarnir mistókust. Við gerðum eitthvað rangt, það getur ekki verið eðlilegt að við endurmat á bönkunum í dag séu færðar svo og svo miklar fjárhæðir út úr íslenska hagkerfinu og inn í erlenda vogunarsjóði.

Það var akkúrat það sem Framsóknarflokkurinn benti á í febrúar 2009. Formaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sagði ítrekað að nú væri tækifærið fyrir íslenska lífeyrissjóði og íslenska ríkið að kaupa upp kröfurnar í bankakerfinu fyrir örfá prósent. En hverjir gerðu það? Erlendir vogunarsjóðir. Þeir sitja núna hreinlega með krumlurnar á okkur og herða að daginn út og daginn inn. Peningarnir renna út úr íslensku hagkerfi inn í erlenda vogunarsjóði (Forseti hringir.) og á því ber núverandi ríkisstjórn og fjármálaráðherra alla ábyrgð.