140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. formanni fjárlaganefndar fyrir svörin. Hún svaraði að vísu ekki spurningum mínum en ræddi sérstaklega um kosningastefnuskrá Framsóknarflokksins. Ég vil þá minnast á önnur atriði sem komu fram í kosningastefnuskrá Framsóknarflokksins, það var að áður en yrði gengið frá samningum við kröfuhafana mundum við nýta svigrúmið til afskrifta innan bankanna til að færa niður lán heimilanna og fyrirtækjanna, 20%-leiðina ef einhver skyldi hafa gleymt henni.

Eftir kosningar þegar við vorum búin að reyna að kreista fram einhverjar upplýsingar lögðum við fram þingmál hér einn flokka sem fól nákvæmlega í sér hugmynd um aðferðafræði við endurreisn bankanna í þeirri von að það færi fram einhver umræða um það hvernig við ættum að standa að endurreisn bankanna.

Samt fór ekki fram nein umræða, það var ekki neinn áhugi á því. Í staðinn lásum við í blöðunum eins og allir aðrir um það hvernig staðið hefði verið að samningum við kröfuhafana. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að í staðinn fyrir að nota þá réttlætingu að „nú megi ég vegna þess að nú fer ég með völdin“ velti menn fyrir sér nákvæmlega þeim lærdómi sem kom fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og svari hver og einn, sá sem til dæmis ætlar að ýta á græna hnappinn hérna um fjáraukalagafrumvarpið og sölu á Byr, hvort viðkomandi geti metið eigendurna að þessum einkavæddu bönkum, kaupendurna, hvort þeir séu sáttir við verðið, hvort almennt einhverjar upplýsingar ligg á borðinu um verðið, á borði kaupanda, og hvort þeir geti svarað því heiðarlega, jafnvel í einrúmi með sjálfum sér, hvort þeir telji þessi vinnubrögð ásættanleg. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)