140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir að bregðast við ábendingum mínum vegna skýrslu sem hagfræðingarnir Daði Már Kristófersson og Erna Bjarnadóttir sendu nýlega frá sér um stöðu íslensks landbúnaðar við ESB-aðild. Ég vek líka athygli á því að hv. þingmaður sagði í tengslum við það, eftir að ég hafði vakið athygli á því að ESB-aðildin mundi hafa í för með sér mjög mikla röskun og verri kjör fyrir íslenska bændur, að hvorki hann né flokkur hans útilokaði að stuðningur við landbúnað yrði aukinn til að mæta því óhagræði, þeirri tekjuminnkun, sem íslenskur landbúnaður yrði fyrir við aðild að Evrópusambandinu.

Í þessu sambandi vil ég rifja upp að í skýrslunni kemur fram að til þess að íslenskur landbúnaður sé jafnsettur fyrir og eftir ESB-aðild þurfi að auka framlög til hans um 6–7 milljarða kr., kannski 70–80%. Við erum ekki að tala um neinar smáupphæðir, við erum að tala um upphæðir af þessari stærðargráðu.

Það er alveg ljóst að, eins og ég kom aðeins inn á í ræðu minni áðan, að með aðild að Evrópusambandinu yrðu líka alls konar óbein áhrif, t.d. ef innflutningur á svínakjöti, kjúklingum, nautakjöti mundi aukast hefði það mjög mikil áhrif á kjötmarkaðinn í heild og þar með talið sauðfjárræktina. Þó að fyrir því séu færð rök að hin beinu áhrif á sauðfjárræktina verði ekki mikil er augljóst mál að óbein áhrif yrðu mjög mikil. Síðan er hitt sem kemur fram í þessari skýrslu að áhrifin á samsetningu framleiðslunnar yrðu mjög mikil, t.d. í mjólkurframleiðslunni, og það mundi örugglega hafa veruleg áhrif á atvinnustig í landinu, eins og ég færði rök fyrir.

Aðalatriðið er að ég undirstrika það sem hv. þm. Helgi Hjörvar sagði. Hann sagði efnislega eitthvað á þá leið að það væri ekki meining Samfylkingarinnar að raska stöðu íslensks landbúnaðar og útilokaði ekki að auka stuðninginn við landbúnaðinn í því skyni ef til aðildar að ESB kæmi. Þetta finnst mér vera heilmikil yfirlýsing, (Forseti hringir.) tímamótayfirlýsing, og til marks um hina miklu ákefð Samfylkingarinnar að fara í Evrópusambandið, að vilja kosta til þess kannski 6–7 milljörðum kr. til stuðnings íslenskum landbúnaði.