140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

Málefni innflytjenda.

[14:22]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Á krepputímum er mikilvægt að hafa í huga að innflytjendur eru auðlind, ekki félagslegt vandamál. Ófullnægjandi íslenskukennsla leiðir til mikillar sóunar á hæfileikum, ekki bara hjá innflytjendum heldur líka hjá börnum Íslendinga sem hafa verið búsettir lengi erlendis.

Margir innflytjendur koma hingað til lands vegna skorts á fólki í atvinnugreinum þar sem greidd eru lág laun og krafist er líkamlegrar vinnu, störf sem margir Íslendingar geta ekki hugsað sér að sinna en eru nauðsynleg til að tryggja góð lífskjör í landinu. Á uppgangstímum er erlendu vinnuafli fagnað en á erfiðleikatímum óttast margir að innflytjendur taki af þeim störfin og undirbjóði þá í launum. Rannsóknir sýna hins vegar að slíkur ótti á ekki við rök að styðjast. Á þessu þarf að hamra.

Margir álíta að innflytjendur eigi að snúa aftur heim þegar gestalandið þarf ekki lengur á þeim að halda. Margir innflytjendur hafa hins vegar komið hingað til að setjast að og eiga oft ekki afturkvæmt til heimalandsins.

Frú forseti. Atvinnuleysi er núna meira á meðal innflytjenda en annarra hópa og laun þeirra almennt lægri. Hætta er á að kreppan verði til þess að margir innflytjendur komist ekki aftur inn á vinnumarkaðinn og lokist inni í ákveðnum hverfum borgarinnar líkt og í nágrannalöndunum. Þetta má ekki gerast og við verðum að tryggja gagnkvæma aðlögun og virka þátttöku allra í samfélaginu.