140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

náttúruvernd.

225. mál
[14:51]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra framlagningu þessa máls. Þetta er mjög mikilvægt og mjög tímabært mál og gleðilegt að lesa það. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra tveggja spurninga. Sú fyrri lýtur að útgáfu korta. Á sínum tíma var útgáfa korta á Íslandi einkavædd eins og svo margt annað og hver sem var mátti gefa út vegakort og landakort. Það var athyglisvert að fylgjast með því að í hverri nýrri útgáfu var lofað nýjum og nýjum upplýsingum um nýja vegi og nýja slóða sem hafði að sjálfsögðu afgerandi slæm áhrif á náttúru Íslands.

Það er mjög mikilvægt verkefni að tekið verði með skýrum hætti á þessum málum, og ég leyfi mér að benda á frumvarp hv. þm. Róberts Marshalls og fleiri um háar sektir og haldlagningu ökutækja ef menn keyra utan vegaslóða. Það sem ég hef hins vegar heyrt undanfarna daga eru til dæmis yfirlýsingar af hálfu Landmælinga Íslands um að það geti tekið allt að tíu ár að ganga frá svona kortagrunni. Það finnst mér alveg ótrúlegt og er í rauninni alls ekki líðandi að það taki svo langan tíma. Finnst mér reyndar þau tvö til fjögur ár sem hæstv. ráðherra talaði um vera algert hámark og í rauninni of langur tími líka því að það er vitað hvar þessir slóðar eru. Það á ef til vill eingöngu eftir að ná samkomulagi við sveitarfélög um hvar verður leyft að keyra og hvar ekki.

Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta sé rétt og hvort ekki sé hægt með einhverjum ráðum að stytta þennan tíma umtalsvert. Við megum ekki missa neinn tíma í þessu máli. Ég kem svo í síðara andsvari mínu að síðari spurningunni, en í fyrri spurningunni er framhald þar sem mig langar jafnframt að spyrja hvað líði innköllun eldri korta. Nú verður hér væntanlega í gangi einhver aragrúi af vegakortum í fórum fólks sem eru þá ekki gild. Með hvaða hætti verður stuðlað að innköllun þeirra?