140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

náttúruvernd.

225. mál
[14:55]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Þetta voru ágætisupplýsingar. Ég skora á hæstv. ráðherra að einbeita sér að því að það verði forgangsraðað hjá Landmælingum og víðar með þeim hætti að þessi utanvegaakstur verði orðinn liðin tíð innan sem skemmst tíma.

Síðari spurningin mín til hæstv. ráðherra varðar torfæruhjól og torfæruhjólaakstur. Nú er það vitað mál að tjón af völdum torfærumótorhjóla er gríðarlega mikið. Það eru heilu útgerðirnar úti um allt land sem gera núna út á það að leigja fólki, bæði útlendingum og Íslendingum, torfæruhjól svo þeir geti keyrt á miklum hraða um vegi og vegslóða, en aksturslagið er einfaldlega með þeim hætti að slóðarnir og vegirnir eru eyðilagðir á mjög skömmum tíma. Fyrir utan það er náttúrlega alltaf til staðar sú freisting, sem maður hefur sjálfur séð margoft, að fara aðeins út fyrir slóðann og upp þessa hæð eða upp þetta fjall. Ég hefði sjálfur talið það brýnt á sínum tíma þegar farið var að flytja inn í torfærumótorhjól í stórum stíl að settar yrðu skorður við notkun þeirra, strax frá upphafi. Það var ekki gert, væntanlega í nafni einhvers konar einstaklingsfrelsis.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hefur það verið hugleitt að banna akstur slíkra hjóla nema þá á viðurkenndum æfinga- og leiksvæðum? Það er að vísu erfitt að banna slíkan akstur til dæmis erlendra ferðamanna sem koma hingað eingöngu til ferðalaga, en stór hluti af torfæruhjólaakstri á Íslandi er á þeim forsendum að menn eru að spæna áfram í aksturslagi sem fyrst og fremst er adrenalínörvandi og það getur verið gaman að því og gott að hafa þá en það þarf þá að vera á sérstaklega tilgreindum stöðum. Það má ekki vera hvar sem er um landið. Er eitthvað fyrirhugað í þeim málum í ráðuneytinu?