140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

náttúruvernd.

225. mál
[14:57]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Að því er varðar torfæruhjólin, ég þakka þá athugasemd og er mikilvægt að koma þeirri umræðu hér að, er þar um verulega aðkallandi viðfangsefni að ræða, eins og þingmaðurinn fór ágætlega yfir. Í þessum efnum, eins og í öðrum og ég veit að það er líka það sem hv. þm. Róbert Marshall hefur íhugað í tengslum við sitt mál sem tengist þessu, burt séð frá því hversu traust löggjöfin er þurfum við í fyrsta lagi bæði að styrkja verulega eftirlit og eftirfylgni og svo auðvitað að höfða til ábyrgðarkenndar þeirra sem um landið fara. Þá er ég að tala um tvennt, annars vegar ábyrgð þeirra útivistarsamtaka, bæði jeppafélaga, jeppasamtaka, og líka þeirra sem hafa unun af því að fara á hjólum og vélhjólum, torfæruhjólum, um landið, að þeir aðilar sýni ábyrgð. Það sem við erum að tala um hér er að setja umferðarreglur á hálendinu. Menn hafa jafnvel gengið svo langt að kalla það skerðingu á ferðafrelsi, sem mér finnst í hæsta máta óviðeigandi orðfæri í ljósi þess hluta heimsins sem býr við skort á ferðafrelsi í alvörunni, að geta ekki farið á hjólinu sínu eða jeppanum sínum hvert á land sem er.

Hitt eru auðvitað ferðaþjónustuaðilarnir og það er rétt sem kom fram í ábendingu hv. þingmanns, að það er til í dæminu að við sjáum auglýsingar bæði þar sem verið er að auglýsa hjólaferðir og jeppaferðir þar sem beinlínis er verið að laða ferðamenn að ævintýraferðum þar sem ferðin byggist á utanvegaakstri. Þarna verðum við að höfða líka til ábyrgðarkenndar borgaranna, þ.e. bæði atvinnulífsins hvað varðar þessa ferðaþjónustuaðila, almennings og félaga í útivistarsamtökum og annarra sem með málin fara.