140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

skipulagslög.

105. mál
[15:47]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við hæstv. ráðherra og líka hv. þingmaður sem hefur tekið þátt í þessari umræðu séum sammála um að það sé mjög mikilvægt að tryggja og gæta að réttaröryggi íbúa í sveitarfélögum og þess vegna sé mjög brýnt að farið sé að þeim lögum sem Alþingi setur, og þar með farið eftir þeim frestum sem settir eru í lög. Ef við teljum þá fresti ekki vera næga er ekki mjög erfitt fyrir okkur — við höfum meira að segja verið þekkt fyrir að afgreiða hér lög á nokkrum klukkustundum — að bæta í þá.

Eitt af því sem við veltum fyrir okkur þegar við vorum að vinna þetta mál var hvort fjórar vikur væri nægur tími fyrir ráðherra eða ekki. Niðurstaða okkar var sú að það ætti að vera nóg í ljósi þess að það er sá frestur sem Skipulagsstofnun hefur, sem fer einmitt með þá rannsóknarskyldu sem nefnd var hér þó að það sé sjálfstæð rannsóknarskylda hjá ráðherranum líka, til að safna saman þessum gögnum og þegar ráðherra tekur ákvörðun sína ætti hann náttúrlega að hafa þegar aðgang að gögnum sem koma frá sveitarfélaginu og gögnum og athugasemdum sem hafa komið fram hjá Skipulagsstofnun. Maður mundi því telja að sambærilegur frestur og við gerum ráð fyrir að dugi Skipulagsstofnun ætti líka að duga ágætlega fyrir ráðherra.