140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

skipulagslög.

105. mál
[15:49]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og þeim sem tóku þátt í henni og bregðast aðeins við ábendingum og spurningum sem var beint til mín.

Í fyrsta lagi vil ég taka fram að sex þingmenn Suðurkjördæmis flytja þetta mál úr þremur flokkum, Sjálfstæðisflokknum, Samfylkingunni og Framsóknarflokknum. Hvað varðar sérstakan áhuga þingmanna Suðurkjördæmis á þessum synjunum eða frestum, sérstaklega þegar farið er fram úr lögbundnum frestum, er mjög áhugavert að skoða fylgiskjalið frá Skipulagsstofnun um aðalskipulög þar sem farið hefur verið fram úr lögbundnum frestum. Sveitarfélög sem tilheyra Suðurkjördæmi eru 50% af þeim sveitarfélögum þannig að það skýrir kannski málið að einhverju leyti. Hér er fyrst og fremst aðeins verið að tala um það þegar Skipulagsstofnun fer fram yfir frest en það væri líka áhugavert að skoða sambærilegt blað um ráðuneytið.

Síðan fagna ég þeirri jákvæðni sem hefur komið fram í umræðunni sérstaklega varðandi b-lið 1. gr. um að ráðherra verði settur ákveðinn frestur til að synja, fresta eða staðfesta aðalskipulag frá því að tillaga frá Skipulagsstofnun berst ráðuneytinu. Ég mundi telja að við ættum að geta tekið afstöðu til þessa strax á þessu þingi í ljósi þeirrar reynslu sem þegar er komin fram. Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra hefur skilvirknin þegar aukist, til dæmis við þá breytingu sem gerð var með því að Skipulagsstofnun getur raunar lokið málum ef ekki eru gerðar neinar efnislegar athugasemdir við aðalskipulag.

Ég vil líka taka undir að að sjálfsögðu skipta gæðin hér máli líka, réttaröryggi, form og innihald. Ég held að það séu allt þættir sem við höfðum í huga þegar við unnum þetta mál. Það er líka mjög mikilvægt þegar við tölum um traust og að draga úr tortryggni, að við treystum líka sveitarfélögunum og að við horfum til þess að þar eru menn að reyna að vinna vinnuna sína eins vel og þeir mögulega geta og eru kosnir til þess af íbúum viðkomandi sveitarfélags. Þarna er að mínu mati ekki verið að gera of miklar kröfur til annarra stjórnsýslustiga eins og Skipulagsstofnunar og síðan ráðuneytisins sjálfs.

Ég verð að vísu að andmæla því sem kom hér fram að við getum ekki umsagnar Skipulagsstofnunar í greinargerðinni, því að þó að við höfum ekki tilgreint nákvæmlega hverjir hafi veitt umsagnir er í greinargerðinni fjallað um þær athugasemdir sem komu þar fram. Til dæmis er tekin afstaða til spurningarinnar um bótaskyldu. Í ljósi þess sem maður þekkir til og svara hæstv. ráðherra í umræðu um aðalskipulög, sérstaklega hvað varðar mitt kjördæmi, að þá ítreka ég enn á ný að hér er verið að tala um heimildarákvæði, ekki er verið að skylda sveitarfélögin til að gera þetta. Og þegar samskiptin eru eðlileg og traust samband á milli þessara ólíku stjórnsýslustiga og unnið að því að koma í veg fyrir tortryggni á milli aðila, get ég ekki séð að sveitarstjórnir ættu raunar að beita þessu heimildarákvæði, en það væri hins vegar til staðar og von okkar er sú að með því virði menn t.d. lögbundna fresti.

Ég minni þingmenn á að hér er bent á að ákvæðið um fjögurra vikna frest sem Skipulagsstofnun hefur er nú þegar í lögum, í 32. gr., þannig að það er hreinlega verið að segja að stofnunin eigi að fara að lögum. Ef við teljum að stofnunin þurfi lengri frest er það hins vegar eitthvað sem við þurfum að taka fyrir. Ég geri ráð fyrir að hv. umhverfis- og samgöngunefnd muni meðal annars skoða það þegar hún tekur málið til umfjöllunar.