140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

skipulagslög.

105. mál
[15:54]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Rétt í lokin, ég vona að þetta fari allt vel og jafnvel að við getum gert einhverjar jákvæðar breytingar eftir að hafa fengið umsögn um málið frá aðilum. Ég horfi einkum á þá breytingu að ráðherra fái ákveðinn tímafrest eða kannski öllu heldur, svo maður tali bara frjálst og glatt, að honum sé gert að tilkynna sveitarfélaginu ef umfjöllun í ráðuneytinu fer fram úr einhverjum tilteknum tíma og þá geti sveitarfélagið fengið að vita hvað er að og hvenær megi gera ráð fyrir svari.

Það er á hinn bóginn ekki skynsamlegt að setja þessi mál upp þannig að þau líti út eins og einhverjir pappírar á hreyfingu í Spaugstofunni þegar settur er á þátturinn, sem ég vona að þingheimur hafi notið að horfa á, Dagur í lífi opinbers starfsmanns. Það er mjög kaldlynt en skemmtilegt grín um opinbera stjórnsýslu eða skrípamynd af opinberri stjórnsýslu. Þó að þetta líti þannig út er þetta ekki án tilgangs. Þetta er ekki þannig að annars vegar séu Skipulagsstofnun eða ráðherra og hins vegar sveitarfélögin og báðum megin býrókratar að takast á, heldur er hagsmunaaðilinn í þessu máli íbúinn og fyrirtækið sem starfar á staðnum. Til þess er aðalskipulag að þjóna íbúunum og starfseminni sem fer fram á svæðinu. Þegar við skoðum svona mál er fyrsta prinsippið sem við eigum að skoða: Hvað kemur íbúunum vel? Er það virkilega íbúunum í hag að fá vonda aðalskipulagstillögu samþykkta tveimur vikum fyrr? Nei, forseti, það er ekki þannig.

Við skulum því láta hagsmuni íbúanna ganga fyrir og ganga fyrir pirringi (Forseti hringir.) og þreytu embættismanna hvorra á öðrum í þessu efni.