140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

skipulagslög.

105. mál
[15:58]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég ætlaði að láta þetta duga að sinni í málinu en flutningsmaður kýs að draga inn í þetta mál um tímafresti í aðalskipulagi annað mál, væntanlega um skipulag Flóahrepps og nærliggjandi sveita þó að hv. flutningsmaður hafi ekki nefnt það. Ég vil af því tilefni lýsa því hér yfir, þannig að ég gerist nú hátíðlegur, að ég stend við allt það sem ég hef sagt um það mál.

Það urðu hins vegar breytingar á skipulagslögunum síðustu sem þingheimi og flutningsmanni eru kunnar sem breyta stöðunni að því leyti að ef um flókin og viðamikil skipulagsmál er að ræða kemur til greina að láta þann sem einkum hagnast á breytingunum eða í þágu hvers breytingarnar eru gerðar, greiða ákveðið gjald. Það er þá opið og augljóst og alveg klárt hvert það er og í hvaða tilgangi. Þá er ekki blandað inn í það farsímasambandi, vegalögnum hingað og þangað, kaffisamsætum, húsabyggingum o.s.frv. sem ekki hafa nein tengsl við málið, þannig að ég stend við það. Ég skil ekki af hverju flutningsmaður er að draga það hér inn. Ef frumvarpið var um það átti flutningsmaður að fjalla á þann hátt um það frá upphafi og skýra frá því í greinargerð að frumvarpið snerist um meintar mútugreiðslur til sveitarfélaga frá virkjunarfyrirtækjum.

Ég er undrandi á þessu, forseti, og leiðist það að þetta mál skuli vera dregið inn í þessar umræður þar sem menn, þrátt fyrir allt, héldu sig við þokkalega skynsemi og vit um skipulagsmál.