140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

þjóðgarður við Breiðafjörð norðanverðan.

238. mál
[16:09]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka frummælanda fyrir hans mál. Ég hef kynnt mér þessa tillögu þó að ég sé ekki meðflutningsmaður á henni. Ég hef verið talsmaður þess að hlúa betur að þjóðgörðum á Íslandi í hvívetna, við höfum reynt að bæta við þá, stækka þá og fjölga þeim á undanförnum árum. Nægir þar að nefna þjóðgarðinn á Snæfellsnesi að ekki sé talað um Vatnajökulsþjóðgarð; og nú er reyndar talað um Hofsjökulsþjóðgarð í þessum efnum og spurning hversu langt suður hann nær. Jafnframt veit ég til þess að hæstv. umhverfisráðherra er nýkomin að austan, frá Gerpissvæðinu þar sem til stendur að búa til friðað svæði. Og allt er þetta af hinu góða, við eigum nægt land, Íslendingar, til að huga að meiri friðun og verðum að horfa til þess í auknum mæli.

Ég set þann eina fyrirvara við þá tillögu sem hér er til umræðu að gert verði ráð fyrir því að Vestfirðingum verði ekki hömluð för um þennan landshluta svo og öðrum sem þar fara gjarnan um, Íslendingum og erlendum ferðamönnum í auknum mæli.

Ég spyr því hv. framsögumann þessa máls hvort tillagan geri ráð fyrir láglendisvegum um þetta hérað sem enn sem komið er lifir aðra öld en nú er uppi í samgöngumálum.