140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

þjóðgarður við Breiðafjörð norðanverðan.

238. mál
[16:11]
Horfa

Flm. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Því er ekki að leyna að átök, kapp án forsjár og sperringur, sem ég vil kalla, í einstökum frammámönnum á þessu svæði og raunar annars staðar hefur leitt til þess að vegabótum við norðanverðan Breiðafjörð hefur seinkað. Það hefur gengið verr með þær en nokkur efni stóðu til. Þar á meðal féll tillaga um láglendisveg, vissulega, sem átti að fara í gegnum Teigsskóg í Hæstarétti. Hvað tók það langan tíma? Það tók mjög langan tíma og á meðan hafa Tálknfirðingar, Patreksfirðingar og þeir á Bíldudal, og það fólk allt, þurft að bíða. Það er algjörlega eðlilegt að mikil óþreyja sé í því máli.

Í greinargerð með tillögunni er fjallað um láglendisveg sem fælist í göngum undir Hjallaháls og við vitum, tillögumenn, að það er ekki ókeypis. Við erum reiðubúnir að beita okkur fyrir því að meðfram stofnun þjóðgarðsins verði veitt fé til að búa til þennan veg sem þjónaði tvenns konar tilgangi, annars vegar þeim að virða náttúru þjóðgarðsins og fara mjúkum höndum um hana öllum í hag og þjónaði hins vegar íbúum á sunnanverðum Vestfjörðum og í þessu héraði líka. Það gleymist stundum að þarna býr fólk líka og það hefur atvinnu og þarf að komast austur, vestur og suður.