140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

þjóðgarður við Breiðafjörð norðanverðan.

238. mál
[16:39]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vakti máls á því hér áðan að það var að frumkvæði heimamanna sem þráðurinn var tekinn upp aftur að því er varðar Rauðasand og Látrabjarg. Það svæði er á náttúruverndaráætlun þeirri hinni fyrstu þannig að stefnumarkandi ákvörðun hafði verið tekin, stefnan hafði verið tekin, hér af hendi Alþingis og þreifingar höfðu átt sér stað á sínum tíma, en núna virðist vera lag og áhugi hjá heimamönnum sem er vel. Ég árétta að það er gríðarlega mikið samráðsferli eftir þar vegna þess að þarna eru mjög margir landeigendur annars vegar.

Að því er varðar samgöngur á þessu svæði er það lengra mál og flóknara og eitthvað sem hefur verið rætt undir ýmsum öðrum dagskrárliðum á hv. Alþingi en nákvæmlega þessum. En staða sveitarfélagsins Vesturbyggðar er náttúrlega þannig — og segir eiginlega alla söguna að þetta er eina svæðið á landi sem er háð ferjusamgöngum. Það er eiginlega sá grundvallarþáttur sem dregur fram hina óvenjulegu stöðu þessa sveitarfélags.

Ég tek undir orð þeirra sem segja að vinda þurfi bráðan bug að því að þetta mál verði leyst, en það verður ekki leyst á þann hátt sem lagt hefur verið upp með hingað til, þ.e. með störukeppni, vegna þess að sú störukeppni hefur staðið yfir afar lengi. Að mínu mati verður þessi hnútur ekki leystur með vegi í gegnum Teigsskóg, en ég er tilbúin til að leggja mitt af mörkum að því er varðar skapandi lausnir í þessu efni.