140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

þjóðgarður við Breiðafjörð norðanverðan.

238. mál
[16:41]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög athyglisverð umræða um samgöngur annars vegar og friðun og stofnun þjóðgarða hins vegar. Vonandi fer þetta í sem ríkustum mæli saman, vegna þess að hér eru miklir hagsmunir í húfi, annars vegar landið okkar og náttúra og hins vegar kjör og aðstæður íbúa í landinu.

Nú er það svo, eins og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir kom inn á áðan og reyndar hæstv. ráðherra líka, að Breiðafjörður er ægifagur og Barðaströndin sömuleiðis. Ég hef átt því láni að fagna að fara þarna oft um og gæti vitnað til bóka frá þessu svæði, eins og ævisögu Matthíasar Jochumssonar frá Þorskafirði sem Þórunn Erlu- Valdimarsdóttir skráði og fjallar um þetta svæði í ríkulegum mæli. Ég minni líka á bókina um Steinólf Lárusson í Ytri-Fagradal á Skarðsströnd sem fjallar á kostulegan hátt um þetta svæði og þau áhrif sem það hefur á menn og gott ef ekki skepnur líka.

Að þessu sögðu langar mig að vita, vegna þess að það er, að mínu mati og hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, sem kom hér rækilega fram áðan, líklega forsenda þess að byggja upp vandaðan þjóðgarð á þessu svæði að við höggvum á hinn slæma hnút sem er í afstöðu manna til samgöngumála á þessu svæði.

Mér leikur forvitni á að vita hug hæstv. umhverfisráðherra til veglagningar á þessu svæði. Mér finnst ástæða til að kanna hvar hæstv. ráðherra sér vegamöguleikana, hvort það er með göngum í gegnum Hjallaháls og ef til vill Ódrjúgsháls líka yfir í Gufufjörð o.s.frv.?