140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

þjóðgarður við Breiðafjörð norðanverðan.

238. mál
[16:53]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst gerð var athugasemd við orð mín í andsvari hér áðan vil ég taka af allan vafa um það að ég lít ekki svo á að atvinnusjónarmið, mannlíf og umhverfissjónarmið séu andstæður í stríði í þessu máli. Að sjálfsögðu deili ég þeirri skoðun með þingmanninum að þetta þarf allt að fara saman, enda byggja stærstu þættir íslensks atvinnulífs á nýtingu náttúrugæða, hvort sem við tölum um sjávarútveg, landbúnað eða ferðaþjónustu, svo dæmi sé tekið. Að sjálfsögðu liggja allir þessir þættir undir í umræðu sem þessari. Svo koma þær stundir að það þarf að vega og mega vægi einstakra þátta. Sú stund er einmitt uppi í þessari umræðu vegna þess að við stöndum frammi fyrir því að samgöngumálin á þessu tiltekna svæði eru óleysanlegur og óleystur hnútur. Þau snerta fleira en umhverfissjónarmið. Þau snerta hin þungu og veigamiklu sjónarmið sem lúta að mannlífi öllu á þessu svæði og uppbyggingu atvinnulífs. Þá er komið að því að forgangsraða hvert af þessum sjónarmiðum á í raun og veru að koma til fyrstu yfirvegunar þegar við erum að hugleiða málefni svæðisins í heild.

Ég vildi árétta þennan skilning en ég held að raunverulega sé þetta ekki mikill meiningarmunur á milli mín og þingmannsins.