140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

sérgreining landshluta sem vettvang rannsókna, kennslu og atvinnuþróunar.

17. mál
[16:55]
Horfa

Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um sérgreiningu landshluta sem vettvang rannsókna, kennslu og atvinnuþróunar. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem tillagan kemur til umræðu í þinginu. Hún var flutt líka á síðasta þingi, 139. löggjafarþingi, en varð ekki útrædd þá.

Flutningsmenn með mér á þessari tillögu eru hv. þingmenn Birgitta Jónsdóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Oddný G. Harðardóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að beita sér fyrir því að rannsókna-, mennta- og atvinnuþróunartækifæri einstakra landshluta verði skilgreind í ljósi sérstöðu og sérhæfingar á hverjum stað. Skilgreiningin verði höfð til hliðsjónar við ákvarðanir um fjárframlög og stuðning við fyrirtæki og stofnanir í viðkomandi landshlutum. Þetta verði gert í tengslum við þá heildarstefnumótun sem boðuð hefur verið af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytis í málefnum háskóla landsins og sem liður í því að:

a. marka hverjum landshluta sérstöðu í rannsóknum og kennslu, og

b. leggja grunn að uppbyggingu og verkaskiptingu á sviði rannsókna og háskólakennslu á landsvísu.“

Eins og heyra má lýtur þessi tillaga að stefnumörkun háskólastarfs í landinu annars vegar og hins vegar að markvissum stuðningi og stefnu fyrir atvinnulíf á landsbyggðinni. Eins og um var getið hér áðan boðaði mennta- og menningarmálaráðherra í upphafi þessa kjörtímabils heildarendurskoðun á málefnum háskólanna. Slík endurskoðun kallar á skýrari stefnumótun en verið hefur þar sem umsvif háskólastarfsemi í landinu hafa aukist ört undanfarin ár. Við mótun mennta- og rannsóknastefnu háskólastigsins er mikilvægt að horfa til sérstöðu háskólasvæðanna og nýta sem best þá krafta og þær stofnanir sem fyrir eru í hverjum landshluta.

Þegar taka þarf ákvarðanir í atvinnumálum er einnig mikilvægt að líta til nýsköpunar- og þróunarmöguleika í samstarfi atvinnufyrirtækja og háskólaumhverfisins.

Víða um land hefur nú þegar þróast háskóla- og rannsóknaumhverfi með háskólasetrum, rannsókna- og fræðasetrum, fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum, útibúum rannsóknastofnana og fleiru.

Nú, þegar til umræðu er að skerpa stefnumótun íslenska háskólastigsins, liggur beinast við að byggja á þeim grunni sem fyrir er. Þannig væri t.d. eðlilegast að miða rannsókna- og fræðastarf á Vestfjörðum við málefni hafs og strandsvæða almennt. Slík skilgreining mundi efla rannsóknastofnanir á Vestfjörðum og þau atvinnufyrirtæki sem nú þegar sinna rannsóknum og þróunarstarfi og eru í samstarfi við rannsóknaraðila, rannsóknastofnanir og fræðasetur. Á sama hátt mætti hugsa sér að rannsókna- og fræðastarf á Norðurlandi, svo dæmi sé tekið, miðaðist við möguleika í ferðaþjónustu, fiskeldi og búnaðarfræðum í tengslum við háskólana á Hólum og Akureyri, rannsóknastofnanir á svæðinu og fleiri aðila.

Þessi þingsályktunartillaga er í góðu samræmi við áður fram komna stefnumótun sveitarfélaga og atvinnulífs, markmið vaxtarsamninga, byggðaáætlanir, Sóknaráætlun 20/20, svo dæmi sé tekið.

Það má geta þess að í nágrannalöndum okkar er að finna dæmi þess hvernig öflugar háskóla- og rannsóknastofnanir hafa orðið til á grundvelli skilgreiningar sérstöðu af því tagi sem hér er lögð til. Má til dæmis nefna háskólann í Tromsö, sem hefur skilgreint sig á alþjóðavísu sem miðstöð rannsókna og kennslu í málefnum haf- og strandsvæða á norðurslóð, m.a. varðandi lífríki sjávar, veiðar, vistkerfi, loftslag, vatna- og sjávarlíffræði, lífsskilyrði sjávardýra, fæðuval og fæðuframboð, auðlindastjórnun og umhverfishagfræði, svo nokkuð sé nefnt.

Hér er með öðrum orðum, frú forseti, lagt til að farið sé í nauðsynlega skilgreiningarvinnu og hún sé samþætt stefnumótun með það að markmiði að nýta sem best þá fjármuni sem til ráðstöfunar eru. Það er auðvitað mikilvægt á öllum tímum að gera þetta en ekki síst þegar fé er af skornum skammti eins og við búum við um þessar mundir.

Ég tel að ef þessi þingsályktunartillaga verður að veruleika og nær fram að ganga hér skapist gullið tækifæri til þess að skerpa á og styðja við þá stefnumótun sem þegar er orðin og fyrirhuguð er í málefnum háskólastigsins, málefnum atvinnulífsins um landið, og ég tel að þetta yrði mjög til góðs fyrir nýsköpun og atvinnuþróun landshlutanna almennt.

Ég legg til, frú forseti, að tillögunni verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.