140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

stjórnarskipunarlög.

23. mál
[17:02]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til stjórnarskipunarlaga, þ.e. um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Flutningsmenn að þeirri lagabreytingu eru sú er hér stendur og svo hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Höskuldur Þórhallsson, Eygló Harðardóttir og Valgerður Bjarnadóttir.

Sú breyting sem hér er lögð fram er gamall kunningi í þessum sal, má segja, af því að nú er mælt fyrir henni í áttunda sinn. Það virðist sem ég sé alltaf að halda sömu ræðuna vegna þess hversu oft ég hef mælt fyrir þessari tillögu.

Tillagan gengur út á að breyta 51. gr. stjórnarskrárinnar þannig að hún hljóði svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Sé þingmaður skipaður ráðherra skal hann víkja úr þingsæti á meðan hann gegnir ráðherradómi og tekur varamaður hans sætið á meðan.“

Svo segir í 2. gr.:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Það er sem sagt hið margfræga og umtalaða mál að hæstv. ráðherrar eigi að víkja af þingi þegar þeir verða ráðherrar. Þó að málið hafi ekki verið samþykkt í neitt þeirra átta skipta sem ég hef flutt það ásamt meðflutningsmönnum mínum ber ég smávon í brjósti um að nú gæti svo farið að það verði samþykkt skömmu fyrir næstu kosningar. Ég tel að skapast hafi frekar mikill þrýstingur í samfélaginu á að þessi breyting verði gerð. Stjórnlagaráð sem fjallaði um stjórnarskrána og skilaði inn tillögum tók einmitt þessa breytingu upp á sína arma og telur að breyta eigi stjórnarskránni með þessum hætti.

Eins og fyrr segir var frumvarp sama efnis flutt á 123., 131., 132., 135., 136., 138. og 139. löggjafarþingi, og núna er 140. löggjafarþing.

Ég vil taka það fram að hv. þáverandi þingmaður, Kristinn H. Gunnarsson, flutti frumvarp á 130. löggjafarþingi 2003–2004 þar sem lögð lögð var til sambærileg breyting.

Eins og allir vita byggir íslenskt réttarríki á hugmyndum franskra umbótasinna á 18. öld um greiningu ríkisvaldsins í þrjá þætti, löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald, samanber 2. gr. stjórnarskrárinnar. Hugsunin á bak við slíka skiptingu er að hver valdhafi um sig takmarki vald hins en hver hluti ríkisvaldsins fyrir sig átti þó að vera sem sjálfstæðastur. Þó að stjórnarskrá okkar byggist á þessum hugmyndum gerir hún samt ráð fyrir því í dag að hæstv. ráðherrar geti jafnframt verið alþingismenn, þannig að segja má að aðskilnaður löggjafarvalds og framkvæmdarvalds sé í raun ekki eins mikill og 2. gr. stjórnarskrárinnar áskilur. Það hefur samt enginn beinlínis haldið því fram að við séum að brjóta stjórnarskrána, en það er alla vega ljóst að það er ekki beint í anda hennar að hæstv. ráðherrar séu um leið hv. þingmenn, bæði löggjafarvald og framkvæmdarvald, með tvo hatta á sama tíma.

Sagt er að stærsti hluti hinnar eiginlegu vinnu við þingmál fari fram í þingnefndum. Sú hefð hefur skapast að ráðherrar eigi ekki sæti í nefndum þingsins þannig að segja má að núverandi fyrirkomulag leiði til þess að um sjötti hluti þingheims sé ekki virkur nema að litlu leyti í þingstarfinu, þeir sem sinna ráðherradómi sinna ekki nefndarstörfum samhliða.

Jafnhliða þeirri breytingu sem frumvarpið mælir fyrir um hafa flutningsmenn ákveðið að skoða hvort ástæða sé til að fækka þingmönnum í leiðinni. Sú er hér stendur er reyndar ekki hlynnt því, það eru aðrir flutningsmenn sem talað hafa fyrir því. Að mínu mati væri erfitt að fækka þingmönnum frá því sem þeir eru nú út frá eðli starfs þeirra, í því felst til dæmis mikið og alþjóðlegt samstarf sem allar þjóðir þurfa að sinna.

Við gerum ráð fyrir því að framkvæmdin verði sú að um leið og forseti hefur skipað alþingismann ráðherra taki varamaður sæti ráðherra á þingi. Ráðherrann ætti hins vegar rétt á þingsæti sínu aftur jafnskjótt og hann léti af ráðherradómi ef þing hefur ekki verið rofið og boðað hefur verið til nýrra kosninga. Það er mjög mikilvægt atriði af því að staðan er sú að ef einhver hæstv. ráðherra vildi segja af sér þingmennsku og láta varamann taka sæti í staðinn og vera þá ekki með tvo hatta á höfðinu, þ.e. ekki vera hv. alþingismaður og hæstv. ráðherra á sama tíma, og missir síðan ráðherradóminn sem fordæmi eru fyrir m.a. vegna samninga milli flokka o.s.frv., á hann, þ.e. ráðherrann sem segir af sér, ekki afturkvæmt í þingið. Hann væri búinn að segja af sér þingmennsku. Slíkt gerir enginn skynsamur þingmaður sem jafnframt er ráðherra, hann mundi þá loka leiðinni til baka á það þing.

Staðan í dag er mjög þröng og sú er hér stendur man eftir því á sínum tíma að margir í samfélaginu sögðu: Af hverju gerir þú þetta ekki, tekur bara varamann þinn inn í þingið og ert ráðherra á meðan? En það er ekki hægt að setja hæstv. ráðherra í þá stöðu af því að ef þeir fara úr ráðherrastól eiga þeir samt ekki afturkvæmt því að þeir hafa sagt af sér þingmennsku. Núverandi hæstv. ráðherrar eiga ekki um góða kosti að velja í þessu sambandi.

Varðandi þá breytingu er gert ráð fyrir því að hæstv. ráðherra geti áfram tekið þátt í umræðum á þingi eins og fyrr og svarað fyrirspurnum samkvæmt nánari reglum sem settar yrðu þar um í þingsköpum. Það er rétt að taka fram að sú breyting á stjórnarskránni sem lögð er til á sér hliðstæðu bæði í Noregi og Svíþjóð þar sem slíkt fyrirkomulag hefur gefist vel. Fyrst mælt er fyrir málinu í þingsal á hinu hv. Alþingi er skemmtilegt að segja frá því að það er mjög gaman að sýna norrænum gestum Alþingi Íslendinga. Sú er hér stendur hefur gert það margoft og hefur meðal annars sýnt Norðmönnum þinghúsið talsvert oft, enda hálfnorsk. Þeim finnst svolítið skemmtilegt að heyra að beggja vegna við forseta sitja hæstv. ráðherrar, á móti þingmönnum í sal eins og þeir hafi miklu meira vald en þeir, og það hefur nú reyndar verið svo, og „fronta“ salinn, eins og maður segir. Í öðrum þjóðþingum sitja ráðherrarnir oft fyrir framan þingmannahópinn á fyrsta bekk þannig að það er auðvelt fyrir þá að ganga til sætis. En hér sitja ráðherrarnir á móti þinginu, má segja, og það gefur ákveðin skilaboð. Svo finnst líka Norðmönnum gaman og furðulegt að heyra að ráðherrarnir eru á sama tíma þingmenn og taka þátt í atkvæðagreiðslum um mál, ýta bara á grænan, rauðan eða hvítan takka eins og aðrir þingmenn. Þeim finnst það mjög merkilegt af því að Norðmenn og Svíar eru ekki vanir þessu og reyndar ekki Danir heldur. Ég þekki ekki alveg hvernig það er í Finnlandi, ég held að það sé svipað og á hinum Norðurlöndunum.

Ég vil líka nefna að frumvarpið er í anda stefnu Framsóknarflokksins, en á flokksþingum hafa framsóknarmenn ályktað um þessa breytingu í tengslum við umfjöllun um aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og líka um að styrkja þurfi stöðu löggjafarvalds gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Á flokksþingi í janúar 2009 var samþykkt að styrkja þurfi faglega stöðu nefnda og sérfræðiaðstoð við þingið, og að styrkja stöðu þingflokka og þingmanna svo þeir geti leitað sér óháðrar sérfræðiaðstoðar. Auk þess var þar enn á ný ályktað um að þingmenn segi af sér þingmennsku séu þeir valdir til að gegna ráðherraembætti.

Nú er nýbúið að breyta nefndaskipan og ég ber þá von í brjósti að sú breyting hafi verið til bóta. Ég studdi þá breytingu og held að það sé mjög til bóta að fækka nefndum í þinginu, gera þær stærri og þar með öflugri.

Þess ber líka að geta að um þetta mál hefur skapast þverpólitísk sátt meðal ungra stjórnmálamanna. Þeir samþykktu ályktun um þrískiptingu ríkisvaldsins á þingi unga fólksins árið 2007. Ég ætla, með leyfi virðulegs forseta, að lesa hvað unga fólkið sagði um þrígreiningu ríkisvaldsins:

„ÞUF [Þing unga fólksins] telur nauðsynlegt að skýr skil séu á milli hinna þriggja greina ríkisvaldsins. Til að styrkja stöðu löggjafarvalds gagnvart framkvæmdarvaldi er rétt að styrkja nefndasvið Alþingis og Þing unga fólksins telur að enginn skuli gegna þingmennsku og embætti ráðherra á sama tíma. Þing unga fólksins ítrekar að ráðherrar og forstjórar ríkisstofnana bera ábyrgð á ráðuneytum þeim og stofnunum sem þeir eru í forsvari fyrir. Það á ekki að líðast að ráðuneyti og ríkisstofnanir geti farið fram úr þeim fjárveitingum sem fjárlög kveða á um en þeim ber að fylgja rétt eins og öðrum lögum sem Alþingi setur.“

Hér er unga fólkið alveg sammála þeim sem flytja tillögu um þá breytingu að aðgreina eigi algerlega löggjafarvald og framkvæmdarvald og að ekki sé hægt að búa við það lengur að hæstv. ráðherrar gegni þingmennsku samhliða ráðherradómi.

Ég vona að málið verði samþykkt, hvort sem það verður samþykkt á grundvelli þessa frumvarps eða í heildarpakkanum þegar við göngum frá nýrri stjórnarskrá á hinu hv. Alþingi. Vonandi næst góð samstaða um málið og það verður afgreitt skömmu fyrir næstu kosningar af því að það þarf tvennar kosningar til svo stjórnarskrárbreytingar taki gildi.

Almennt um breytingar á stjórnarskrá vil ég segja að við hefðum átt að gera miklu meiri breytingar á stjórnarskránni þó að við eigum ekki að gera þær að óþörfu. Það er þörf á því að gera talsverðar breytingar á stjórnarskrá. Ég hef stutt þá aðferðafræði sem notuð hefur verið hingað til við það þó að ég minni á, og þreytist ekki á því, að Framsóknarflokkurinn vildi ganga mun lengra varðandi stjórnlagaráð á sínum tíma og hafa stjórnlagaþing sem hefði fullt vald í þeim efnum og ljúka málinu. En ekki náðist samstaða um að fara slíka leið vegna andstöðu Sjálfstæðisflokksins í þinginu á sínum tíma. Þeir fóru í mikið málþóf út af því máli og gátu spennt málið inn í kosningabaráttu þannig að það var ekkert annað í stöðunni en að gefast upp, því miður. Þess vegna náði vilji framsóknarmanna ekki fram á þeim tíma, að hér væri stjórnlagaþing með fullum heimildum til að gera breytingar á stjórnarskrá með þjóðaratkvæðagreiðslum o.s.frv. Það varð ekki og það endaði í stjórnlagaráði. Vonandi náum við samt að klára það mál með glæsibrag fyrir næstu kosningar.