140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

rýmri fánatími.

25. mál
[17:15]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Þessi þingsályktunartillaga fjallar um rýmri fánatíma. Hún var flutt á 138. og 139. löggjafarþingi, hún er því flutt núna í þriðja sinn. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að setja reglugerð um notkun þjóðfánans í því skyni að rýmka fánatíma.“

Lög um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið er að stofni til frá 1944 og hafa tekið mjög litlum breytingum frá upphafi, og má færa rök fyrir því að þau séu fullgamaldags.

Tillagan sem hér er lögð fram snýr að því að rýmka heimildirnar um notkun þjóðfánans. Í 7. gr. laga um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið kemur fram að með reglugerð skuli kveða á um fánadaga og hve lengi dags megi halda fánanum við hún. Verið er að leggja til breytingar á einmitt þessu ákvæði.

Árið 1998 var gerð breyting á fánalögum, m.a. þessu ákvæði. Í stað forsetaúrskurðar skyldi kveðið á um fánadaga og fánatíma með reglugerð. Í fylgiskjali II með frumvarpi að breytingalögunum var tillaga um efni reglugerðarinnar og var fánatími þar sá sami og er í gildandi forsetaúrskurði en reglugerð um nánari útfærslu á fánalögunum hefur hins vegar aldrei verið sett og er því forsetaúrskurðurinn enn í gildi. Tillagan sem flutt er núna kveður einmitt á um að fela forsætisráðherra að gera breytingar á reglugerðinni og rýmka í leiðinni fánatímann.

Í forsetaúrskurði um fánadaga og fánatíma sem nú er í gildi segir, með leyfi forseta:

„Fána skal eigi draga á stöng fyrr en klukkan sjö að morgni og að jafnaði skal hann eigi uppi vera lengur en til sólarlags og aldrei lengur en til miðnættis.

Ef flaggað er við útisamkomu, opinbera athöfn, jarðarför eða minningarathöfn má fáni vera uppi lengur en til sólarlags eða svo lengi sem athöfn varir, en þó aldrei lengur en til miðnættis.“

Sú er hér stendur leggur til það svigrúm að hafa megi fánann uppi allan sólarhringinn yfir bjartasta tímann á sumrin, frá 15. maí til 15. ágúst. Sú er hér stendur er sem sagt að leggja það til að hafa megi fánann uppi allan sólarhringinn, líka á nóttunni, yfir bjartasta tímann á sumrin, frá 15. maí til 15. ágúst. Hluta þessa tímabils er sólsetur eftir miðnætti og sólarupprás skömmu síðar. Það er bjart út í gegn. Vera má að í framtíðinni verði grundvöllur fyrir því að afnema með öllu hömlur á því hvenær fáninn megi vera uppi, þ.e. að hann megi þá vera á stöng allan sólarhringinn allan ársins hring. En það er ekki verið að leggja það til hér. Eðlilegt er að taka eitt skref í einu og láta reynsluna skera úr um hvort frekari skref verði tekin.

Íslendingar eru stoltir af fána sínum og vilja gjarnan nota hann mikið og það er vel. Ég tel að við eigum að gera þessa breytingu til að auka notkun þjóðfánans almennt. Mér finnst líklegt að slík breyting feli í sér aukna notkun hans.

Ég tel mjög líklegt að fáninn yrði notaður meira, bæði í íbúðabyggð en kannski sérstaklega í sumarhúsabyggð þar sem sumarhúsaeigendur þyrftu þá ekki að hafa áhyggjur af því að taka fánann niður á kvöldin heldur geti flaggað honum á sumrin allan sólarhringinn þannig að hann muni þá blakta fleiri daga en að óbreyttum lögum.

Ég vil líka nefna í leiðinni þó að það sé ekki innihald þessa máls að farið hefur fram umræða í samfélaginu um hvort ekki megi breyta lögum þannig að hægt verði að nota fánann með frjálslegri hætti til markaðssetningar á íslenskri framleiðslu. Bændasamtök Íslands hafa verið því fylgjandi og hafa viljað merkja íslenskar landbúnaðarvörur með þjóðfánanum. Ég tel að mjög æskilegt væri að gera þær breytingar líka og skil hæstv. forsætisráðherra svo að mikill vilji sé að reyna að gera þessar breytingar. Umræðan hefur því verið í þá átt að reyna að auka svolítið frjálsræði fánalöggjafarinnar.

Virðulegi forseti. Þetta er megininntakið í máli þessu, að rýmka fánatímann frá 15. maí til 15. ágúst svo hann megi blakta við hún allan sólarhringinn.