140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

þingsköp Alþingis.

27. mál
[18:08]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég er sammála þingmanninum um mikilvægi andsvara. Ef við hefðum ekki andsvörin held ég að hér væru einræður sem fáir mundu hlusta á. (Gripið fram í: Sammála.) Það sem skiptir mestu máli er samræðan, (Gripið fram í.) að hér fari fram samræður um mál og að menn geti skipst á skoðunum.

Ég er hér með bók sem ég var að kaupa mér sem heitir Hollráð Hugos. Fyrsta ráðið í bókinni er að segja við börnin: Komdu, ég þarf að hlusta á þig. Það er það sem við eigum að gera í þessum ræðustól, við eigum að hlusta á hin sjónarmiðin.

Hvað varðar hitt atriðið, sem ég tel að sé aðalatriðið í því sem þingmaðurinn spurði um, þjóðaratkvæðagreiðsla eða neyðarventill, er stuðningur minn við málið algjörlega skilyrtur við að neyðarhemill verði til staðar. Það getur verið að málið sé á undan sinni samtíð en við erum í ferli við að breyta stjórnarskránni þannig að þjóðaratkvæðagreiðslur geti orðið skuldbindandi. Ég veit að við hv. þm. Pétur Blöndal höfum rætt það áður að við erum ekki alveg sammála um þýðingu ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Við þurfum kannski ekki að endurflytja þær ræður. (Gripið fram í.)