140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

þingsköp Alþingis.

27. mál
[18:12]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Það hefur verið áhugavert að hlusta á þessa umræðu um hvort setja eigi tímatakmarkanir á ræðutíma einstakra þingmanna um einstök mál. Ég er ekki fylgjandi þessu frumvarpi og ætla að fá að útskýra af hverju svo er.

Ég tel að þetta sé eitthvað sem komi til greina en þetta eigi að vera ein af síðustu breytingunum sem við förum í hvað varðar starfsumhverfi Alþingis. Það voru mér mikil vonbrigði þegar t.d. tillögur stjórnlagaráðs komu um að halda í rauninni ákvæðinu um að forseti geti vísað málum í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu en settu ekki inn ákvæði þess efnis að minni hluti Alþingis gæti vísað málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þegar það verður komið inn í stjórnarskrána tel ég að við munum geta gert þessa breytingu á þingsköpum Alþingis.

Ég vil hins vegar hrósa sérstaklega tveimur þingmönnum, hv. þm. Siv Friðleifsdóttur og hv. þm. Margréti Tryggvadóttur sem töluðu á undan mér. Þar eru stjórnarandstæðingar og sérstaklega í tilfelli hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur sem hefur bæði talað á þann máta sem hún talar nú í stjórn og stjórnarandstöðu. Það eru ekki margir sem geta hrósað sér af því. Einn sérfræðingur í íslenskum stjórnmálum sagði við mig eitt sinn að hann teldi að á Íslandi væru í raun bara tveir stjórnmálaflokkar, það væru stjórnarflokkarnir og stjórnarandstöðuflokkarnir, og þegar kæmi að kosningum og valdahlutföllin breyttust eitthvað þá skiptu menn um hlutverk. Það er skoðun mín t.d. að hæstv. fjármálaráðherra sé besta sönnunargagnið hvað varðar þá kenningu.

Það er von mín og ég ætla að fá að fullyrða það að við getum örugglega sagt það flest sem sitjum á þingi að við séum sammála um að það sé ýmislegt sem þurfi að breyta í störfum Alþingis. Ég vildi gjarnan sjá að ráðherrar færu út af þingi og það er tillaga sem var rædd fyrr í dag. Það er stjórnarskrárbreyting þannig að við munum ekki geta gert þá breytingu fyrr en líða fer að kosningum, en hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir hefur lagt fram tillögu sem við ættum að geta útfært á ákveðinn máta með breytingum á þingsköpum.

Ég tel líka að þó að það halli aðeins á stjórnarandstöðuna ef varamenn eru kallaðir inn í staðinn fyrir ráðherra að það ætti að vera hægt að koma til móts við það, t.d. með því að tryggja aukinn hlut stjórnarandstöðunnar í formennsku í nefndum, og t.d. því að stjórnarandstaðan fái aðstoð frá hendi nefndarritara. En eins og staðan er núna vantar að minnsta kosti tvo ritara, og þá ætla ég að fá að útskýra það aðeins fyrir þeim sem eru að hlusta að hér er ekki um að ræða einhverja sem skrifa upp ræðurnar okkar heldur sérfræðinga, lögfræðinga sem starfa á nefndasviðinu og aðstoða okkur við undirbúning mála, við að skrifa nefndarálit, og við þurfum líka að fá meiri sérfræðiaðstoð. Næst á dagskrá er einmitt mál sem ég mun flytja um að sett verði á stofn þjóðhagsstofa sem muni aðstoða þingið við upplýsingar sem varða efnahagsmál sem er mikil vöntun á hér í þinginu. Þetta eru breytingar sem ég tel að séu alger forsenda fyrir því að við getum farið að ræða þessa breytingu á þingsköpum. Þegar hitt er komið í gegn skulum við ræða þetta.

Margt hefur hins vegar verið sagt hér sem hafa verið mér vonbrigði líka. Það voru harðir áfellisdómar í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um það hvernig vinnubrögðum hefur verið háttað á Alþingi og það var líka harður áfellisdómur sem núverandi þing ályktaði um í framhaldi af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar var talað um foringjaræði og það virðist óskaplega lítið hafa breyst, ég held að við getum sagt það bæði um stjórn og stjórnarandstöðu.

Ég vil líka taka undir það sem kom fram hér varðandi mikilvægi styrkari og betri stjórnunar í störfum Alþingis. Það hefur verið þannig í hvert skipti sem þinglok nálgast að ég og fleiri þingmenn höfum kallað eftir ákveðinni forgangsröðun á málum. Þá hafa komið listar frá stjórnarmeirihlutanum sem við höfum bara getað sagt okkur sjálf að varða raunar öll mál stjórnarflokkanna í þinginu, um að hvert einasta mál sem komið hefur inn í þingið sé forgangsmál. Þannig byrja þessar blessuðu samningaviðræður. Og hvað varðar síðasta haustþing var varla einu sinni hægt að fá þennan lista fram, kergjan var svo mikil á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Við í stjórnarandstöðunni erum kannski ekkert betri, ég bara veit það ekki vegna þess að ég sit ekki þá fundi sem fara fram milli þingflokksformanna og formanna stjórnmálaflokkanna. Kannski var lagður fram listi frá hendi stjórnarandstöðunnar þar sem við sögðum til um hvaða mál við vildum alls ekki að færu í gegn og hvaða mál við værum tilbúin að hleypa í gegn. Eða kannski sátu menn bara við borðið og sögðu að við ætluðum að tala út í það óendanlega og þá sögðu kannski stjórnarliðar: Þá talið þið bara. Hversu vitlaust er það í raun og veru? Það hlýtur að vera þannig að við í stjórnarandstöðunni vitum hvaða mál við erum mjög ósátt við. Við látum vita af því í nefndunum. Það kemur í ljós í nefndarálitunum sem við skilum af okkur.

Talandi um málþóf, það fór fram málþóf á haustþinginu sem ég held að hafi að mörgu leyti verið mjög málefnalegt og efnisríkt og bar árangur. Það varðaði tillögur efnahags- og viðskiptaráðherra um að lögfesta gjaldeyrishöftin. Það náðist að stoppa það og af stað fór ákveðin vinna í samráði milli stjórnar og stjórnarandstöðu um mótun peningastefnu og núna eru tveir starfshópar að taka til starfa. Að sjálfsögðu hefðum við líka getað nálgast Stjórnarráðið þannig, en það virtist ekki vera áhugi á því hvorki hjá stjórn né stjórnarandstöðu. Við þurfum að fara að horfast í augu við það, við þurfum að fara að tala heiðarlega um það að þetta er ekki neinum einum að kenna. Við öll, 63, berum ábyrgð á því hvernig samstarfið og samvinnan er á þinginu. Það hefur ekki verið sérstaklega jákvætt og ég hef verið mjög örg og pirruð núna töluvert lengi.

Einhvern tíma var sagt við mig að þegar það væri orðið þannig að maður væri umkringdur fíflum þyrfti maður kannski að fara að íhuga hvort eitthvað væri að hjá manni sjálfum. Ég held að það séu kannski orð sem við ættum öll að taka til okkar. Ræðum þessa tillögu þegar við erum komin með hinar breytingarnar, ég held að það sé meiri hluti fyrir því t.d. að ráðherrar fari, að framkvæmdarvaldið yfirgefi okkur. Ég held að það sé líka vilji til þess, a.m.k. hjá þeim sem ég hef rætt við, að setja þennan neyðarhemil sem stjórnarandstaðan gæti fengið og við yrðum þá líka að fara vel með hann vegna þess að hann kæmi bara í bakið á okkur sjálfum ef við gerðum það ekki. Ég vona svo sannarlega að við náum samstöðu um þessar breytingar á stjórnarskránni þó að það verði eflaust margt annað sem við munum deila um hvað hana varðar.

En eins og staðan er í dag veltir maður fyrir sér hvernig á því standi að svo lítið af málum er komið inn í þingið. Verður þetta enn á ný þannig að ráðherrar komi með bunkann á síðasta degi og við eigum að klára þetta á tveimur, þremur vikum, stór mál? Að enn á ný komi þessi listi fram og öll mál stjórnarinnar eru forgangsmál þó að við vitum ósköp vel að þau megi alveg bíða? Og mun stjórnarandstaðan enn á ný fara að tala og nýta andsvörin jafn vel og við höfum gert hingað til? Það verður alla vega áhugavert að fylgjast með.