140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

þingsköp Alþingis.

27. mál
[18:26]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er mikil áskorun að taka til máls eftir að farið hafa hér mörg orð um innihald og innihaldsleysi í ræðum, en ég mun hafa þetta afar stutt og vil fyrst fremst þakka fyrir mjög góða og gagnlega umræðu. Ég verð að segja það verandi í þessum óvenjulegu sporum sem eru þau að vera bæði nýliði á þingi sem hoppar beint inn í ríkisstjórn, sem hefur í raun og veru ekki þingreynslu en verður strax þátttakandi í hinu ógurlega framkvæmdarvaldi, og að hafa fyrst og fremst reynslu af sveitarstjórnarstiginu að þar eru mál að mörgu leyti með miklu skynsamlegra sniði, þ.e. þar sem borgarráð, sem er þá bæjarráð eða sveitarstjórnarráð, er fjölskipað stjórnvald þar sem fólk situr við borð og ræður ráðum sínum og kemst að niðurstöðu, sameiginlegri niðurstöðu um viðfangsefnið. Ekki eins og það fyrirkomulag sem við búum við hér sem er það að hver ráðherra hefur endanlegt vald í sínum málaflokki og hefur í raun og veru það verkefni eitt að kynna sín mál og sínar ákvarðanir fyrir hinum ráðherrunum í ríkisstjórninni, allt annað snýst í raun og veru um samningaviðræður.

Ég tek undir það sem hér kom fram í máli hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur um þessar launhelgar samningaviðræðnanna, þ.e. það sem við finnum þegar fer að nálgast þinglok á hverjum tíma. Þetta er nánast eins og eitthvert furðuverk að upplifa sem nýr þingmaður, eða ráðherra eftir atvikum, að hér eru langar og miklar mælendaskrár í gangi og svo gerist allt í einu eitthvað allt annars staðar og mælendaskráin hverfur. Þetta er eins og einhverjir galdrar sem eiga sér stað og á ekkert skylt við það sem er að gerast í þingsalnum í raunverulegri umræðu sem á að endurspegla lýðræðislega ákvörðunartöku í lýðræðissamfélagi. Það er eitthvað svo mikið skakkt við þetta.

Ég er ekki meðflutningsmaður hér og það er ein af þeim kúnstum við háttalagið innan húss að það er ekki viðtekið að ráðherrar séu flutningsmenn tillagna þó að þeir séu þingmenn og þó að þeir séu sammála. Þeir eru svolítið lokaðir af í því að vera bara á stjórnarfrumvörpum. Það er líka umhugsunarefni hver er í raun og veru staða manns að vera bæði þingmaður og ráðherra en vera samt bara þingmaður að hluta í raun.

Mér finnst mjög spennandi og áhugavert að ræða þetta, að skilja betur að vettvanginn, þ.e. stöðu ráðherranna annars vegar og þingmannanna hins vegar. Hins vegar skiptir auðvitað miklu máli að eftir sem áður liggi fyrir sá möguleiki þingsins að taka ráðherrana á teppið, ef svo má segja, og spyrja ráðherrana út í verkefni sem framkvæmdarvaldið hefur axlað ábyrgð á og er að framkvæma í nafni þingræðisins. Það þarf að vera fyrir hendi eftir sem áður með einhverjum hætti. Svo þarf, eins og hér hefur áður verið drepið á, að tryggja að það verði ekki misvægi í röddum innan þingsins með því að stjórnarliðar verði of háværir því að nógu mikið vægi hafa þeir samt í þingsalnum þó að þeir séu ekki með tvöfalt vægi á við fjölda ráðherranna.

Þetta vil ég segja svona almennt. Ég vil líka dálítið bera blak af nýjum þingmönnum sem komu inn, af því að ég tek svolítið undir það sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði að þetta urðu vonbrigði. Maður hélt á einhvern hátt að hér væri að koma inn svo mikið af nýju fólki og þjóðin hafði virkilega þörf fyrir að það kæmu nýjar ferskar raddir sem væru virkilega að hreinsa hér til og taka upp ný og heilbrigðari vinnubrögð. En þá komum við aftur að því hverjir kunna til verka þegar allt kemur til alls, hverjir kunna trixin, með leyfi forseta. Þegar þingmennirnir eru komnir hingað, ungir og nýir, og hyggjast breyta verklaginu, hvaða færi hafa þeir á því þegar allt kemur til alls þegar þeir sitja hér og fara að þingsköpum og setja sig á mælendaskrá sem allt í einu hverfur af því að það var haldinn einhver fundur einhvers staðar annars staðar? Það eru hvergi prentaðar upplýsingar um þessa fundi sem valda því að mælendaskráin hverfur. Við höfum bara þingsköpin. Það er kannski efni í að við ræðum málin hér — og er gaman að segja frá því hversu einkynja þessi ágæti fundur er orðinn — það er líka til umhugsunar. (Gripið fram í: … forseti.) Já, herra forseti.

Þá finnst mér það mjög þakkarvert og þakkarefni að hv. þingmenn skuli taka umræðu sem beinir gagnrýnum augum bæði að stjórn og stjórnarandstöðu því að sá máti að helmingurinn sé sekur um allt og hinn helmingurinn saklaus af öllu og geri aldrei mistök er ekki boðlegur, hvorki okkur né þjóðinni sem treysti okkur til að ráða hér ráðum á erfiðum tímum.