140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

3. umr. um fjáraukalög og salan á Byr.

[15:08]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Svo að hlutirnir séu settir í samhengi þá erum við að ganga frá fjáraukalögum á eftir. Í gær voru greidd atkvæði um heimild til hæstv. fjármálaráðherra til að ganga frá hinni svokölluðu einkavæðingu. Í morgun var okkur tjáð, mér og hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni, að ef við mundum líta á samninginn gætum við ekki tjáð okkur um hann. Núna nokkrum mínútum áður en við eigum að ganga frá þessu sem lögum frá Alþingi er sagt að við megum skoða þetta.

Virðulegi forseti. Eru þetta vinnubrögðin sem lofað var? Er Icesave-ferlið orðið regla hjá hæstv. ríkisstjórn? Er Icesave-ferlið eitthvað sem við eigum að ganga út frá sem vísu? Er það bara algerlega (Forseti hringir.) í fínu lagi hjá hv. stjórnarþingmönnum (Forseti hringir.) að samþykkja hluti án þess (Forseti hringir.) að hafa séð þá?