140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

3. umr. um fjáraukalög og salan á Byr.

[15:12]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég geri athugasemd við fundarstjórn forseta og þá dagskrá sem farið er af stað með. Ég benti á það í fyrradag að enn vantar skýrslu frá ríkisendurskoðanda, sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur farið fram á, um ríkisábyrgðir.

Ég fékk af því fregnir nú eftir hádegið að það liggja drög frá ríkisendurskoðanda að skýrslunni í fjármálaráðuneyti hjá hæstv. fjármálaráðherra sem gerir málið enn alvarlegra. Hæstv. fjármálaráðherra hefur nú þegar séð drög að skýrslunni en það er Alþingi sem á að fá þessa skýrslu í hendur og það er að beiðni alþingismanns að þessi skýrslugerð fer af stað. Það skýrir kannski asann á afgreiðslu þessa máls, á þessum fjáraukalögum, að keyra þau í gegnum þingið, vegna þess að vitað er, og ríkisendurskoðandi sjálfur hefur beinlínis gefið það í skyn, að hæstv. fjármálaráðherra hefur farið langt fram úr valdheimildum sínum (Forseti hringir.) og það er verið að keyra lögin í gegn til að gefa (Forseti hringir.) gjörðum hæstv. fjármálaráðherra gildi.