140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að óska okkur öllum til hamingju með daginn, það er dagur íslenskrar tungu í dag og við í Íslandsdeild Norðurlandaráðs hlökkum meðal annars til að sjá opna á vefnum islex.hi.is seinna í dag norræna veforðabók þar sem íslenska er grunntungumálið og verður opin almenningi á vefnum.

Sömuleiðis verða kynnt í tilefni dagsins drög að nýjum íslenskum talgervli. Það er málið sem ég vildi taka aðeins til umræðu. Ég er hér með síma og þó að það sé dagur íslenskrar tungu talar síminn því miður bara ensku. Það fer mjög fjölgandi ýmiss konar tækjum og tæknibúnaði, ekki síst sem nýjar kynslóðir nota, sem tala. Við höfum því miður slegið slöku við við að þróa tungutæknina stafrænt á Íslandi og eru nýjustu tæki sem hafa komið á markað á undanförnum missirum og árum ekki þannig úr garði gerð að þau tali íslensku. Auk þess ryður sér mjög til rúms raddstýringarbúnaður og verður æ meira ráðandi á næstu árum. Þar erum við enn fjær því að geta notað íslensku til raddstýringar vegna þess að málfræðigrunnurinn og grunnurinn í kringum tungumálið til að hægt sé að þróa hina nýju tækni á grundvelli íslenskunnar er einfaldlega ekki fyrir hendi. Það er dýrt og verður ekki gert á forsendum markaðarins og það verður ekki gert öðruvísi en að við setjum fjármuni sem sýnir það að við ætlum að láta íslenskuna ekki bara vera á tyllidögum, heldur að ungar kynslóðir og ný tækni eigi að byggja á notkun íslenskunnar og til þess þurfum við að setja fjármuni. Ef tæknin og tækin gera þá kröfu að töluð sé enska (Forseti hringir.) við það og þau tali ensku við nýjar kynslóðir mun það auðvitað bitna á okkar ástkæra ylhýra tungumáli.

Hér voru forvígismenn í stjórnmálum sem höfðu mikinn skilning á mikilvægi tungutækninnar og settu fjármuni í að þýða (Forseti hringir.) stýrikerfi og búa til grunn til þess að við gætum notað íslensku í tölvuumhverfi morgundagsins. Ég brýni okkur í tilefni dagsins að sýna það sama frumkvæði og áður var gert og setja þetta mál aftur í öndvegi.