140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Á undanförnum dögum hafa dunið á þjóðinni útvarpsauglýsingar frá svokölluðum hagsmunaaðilum sem flestir koma úr harðasta baklandi Sjálfstæðisflokksins. Þar kvarta þeir sáran undan því að fá ekki aðkomu að löggjafarvaldinu, að fá að skrifa lög fyrir Íslendinga.

Þetta segir okkur ýmislegt og vekur upp nokkrar spurningar. Í fyrsta lagi hljóta þessir aðilar að hafa átt greiðan aðgang að löggjafarvaldinu fram til þessa og hafa sett fingur sína og fingraför, vil ég segja, á lagasetningu í landinu í mörg ár.

Í öðru lagi lýsir þetta ákveðnu viðhorfi frá hagsmunaaðilum svokölluðum sem koma úr þessum geira til löggjafarvaldsins, hvernig eigi að setja lög í landinu, að það skuli ekki gert án þeirra aðkomu.

Í þriðja lagi opinberast í þessum auglýsingum þau tengsl sem hafa verið milli stjórnmálaflokka, í þessu tilfelli Sjálfstæðisflokksins, og viðskiptalífsins í landinu og undirstrikar sömuleiðis að þar hefur lítið breyst.

Í fjórða lagi, virðulegi forseti, sýnist mér og heyrist á þessum auglýsingum þar sem þess er krafist að hagsmunasamtök fái að koma að því að setja lög á Alþingi, að þau hafi þá á tímabili í það minnsta fengið eitthvað fyrir sinn snúð, þau hafa fengið eitthvað fyrir aurinn sem þau lögðu í flokkinn á sínum tíma og til einstaka þingmanna (Gripið fram í.) þeirra. (Gripið fram í.)

Í fimmta lagi undirstrikar þetta sömuleiðis, og ekki síst í ljósi frammíkalla, að þeir þingmenn sem ekki hafa þegar gert upp sín mál gagnvart styrkjum úr atvinnulífinu geri það undanbragðalaust og verði þá hafnir yfir allan vafa.

Stjórnmálaumræðan í dag sýnir og sannar að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekkert breyst þrátt fyrir það sem á undan er gengið, innrætið er það sama. (Gripið fram í: Þú ættir að þekkja …) Flokksmenn virðast líða kvalir fyrir það að vera ekki lengur í Stjórnarráðinu, og baklandið kvelst sömuleiðis. (Gripið fram í.)

Það eru skilaboð, virðulegi forseti, til þingmanna Sjálfstæðisflokksins héðan úr þessum sal: Það er ekkert fararsnið á ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. (Forseti hringir.) Hér ætlum við að sitja og við ætlum að takast á við þau verk sem þjóðin fól okkur á sínum tíma og ég bið þingmenn Sjálfstæðisflokksins að færa þau skilaboð inn á landsfund (Forseti hringir.) flokksins. (Gripið fram í.)