140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það var athyglisvert viðtal við forstjóra Landsvirkjunar í Morgunblaðinu í morgun. Þar er komið inn á að við þurfum að gefa að minnsta kosti einn þriðja til tvo þriðju af þeim mun á raforku sem er á milli orkunnar hér á landi og orkuverðs ytra, þá í Evrópusambandinu. Þetta er þvert á það sem stjórnarliðar hafa sagt að undanförnu þar sem þeir hafa sagt að hámarka eigi arðinn af orkuverði, en auðvitað eigum við að nota þessa orku til atvinnuuppbyggingar á Íslandi fyrst og fremst.

Í öðru lagi langar mig að vekja athygli á þeim orðum að það væri pólitísk ákvörðun hvaða verð menn vildu hafa á raforku hér á landi til almennings. Það hefur nefnilega verið fullyrt í umræðunni að stjórnmálamenn hafi ekki komið að sölu á orku frá Landsvirkjun. Ég tel þetta til marks um það að því miður eru pólitísk fingraför á þeirri stjórn sem er í Landsvirkjun og miklu meiri en stjórnarliðar hafa gefið til kynna. Hann ræddi einnig um arðsemismat Kárahnjúkavirkjunar. Ég tel að það verði að skoða svolítið í ljósi skýrslu sem Landsvirkjun gaf frá árinu 2010. Ég held líka að menn eigi að hafa það svolítið í huga að á árinu 2010 námu tekjur af útflutningi áls frá Íslandi um 220 milljörðum kr. Það er um 40% af öllum vöruútflutningi frá Íslandi. Alcoa eitt og sér greiddi 1,1 milljarð kr. í opinber gjöld til ríkis og sveitarfélagsins Fjarðabyggðar á síðasta ári.

Orkan í Kárahnjúkum hefur (Forseti hringir.) skapað um 800 störf á Austurlandi og ég held að menn eigi einmitt að líta til þessa í því samhengi þegar menn reikna og fara yfir þá arðsemi sem hefur orðið af virkjuninni.