140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ál, ál, hrópa þingmenn Hreyfingarinnar hér. Ég er ekki kominn hingað til að ræða þau málefni, og þó. Ég vil ræða um atvinnusköpun í landinu. Á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun kom fram að á fyrstu níu mánuðum ársins hefur störfum í íslensku samfélagi einungis fjölgað um 150, en á ársgrundvelli þyrfti þeim að fjölga um 1.700 ef standa á undir þeirri nýliðun á vinnumarkaði sem gerist ár hvert. Þetta segir okkur að við þurfum að fara í aðgerðir til að fjölga störfum; í sjávarútvegi, í orkufrekum iðnaði, í hugverkaiðnaðinum, í landbúnaðinum og fleira mætti nefna.

Rauði þráðurinn í umsögnum aðila vinnumarkaðarins, þá talsmanna fyrirtækjanna í landinu, er sá að ríkisstjórnin hefur með mjög ómarkvissum eða jafnvel með markvissum hætti komið í veg fyrir fjárfestingu í íslensku samfélagi. Búið er að gera 126 breytingar á skattumhverfi íslensks atvinnulífs frá árinu 2009 sem er mjög óstöðugt umhverfi og hefur leitt það af sér að fjárfestingin í íslensku atvinnulífi er eins lítil og raun ber vitni. Það að einungis 150 störf hafi orðið til frá áramótum í íslensku samfélagi, þegar þau ættu að vera hátt í 1.700, segir okkur að við erum ekki að vinna bug á atvinnuleysinu. Við horfum áfram upp á það að fólk þarf að fara af landi brott og flytur þá margt hvert ekki lögheimili sitt heldur hverfur tímabundið til starfa, m.a. í Noregi. Þeirri þróun verðum við að snúa við og vinda ofan af, það er nauðsynlegt. Það er verkefni okkar í dag og þess vegna köllum við eftir breyttu vinnulagi og breyttum áherslum hjá núverandi ríkisstjórn þegar kemur að því að skapa störf í íslensku samfélagi. Með því að skapa störf komum við til móts við skuldug heimili, vegna þess að hafi maður ekki vinnu til að framfleyta sér og borga af lánunum er mjög erfitt (Forseti hringir.) að draga fram lífið. Við þurfum stefnubreytingu til að vinda ofan af þeirri óheillaþróun sem blasir við okkur.