140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég gleðst mjög yfir því að hæstv. fjármálaráðherra sé í salnum og bið þingmenn um að fylgjast vel með því sem ég ætla að segja nú og [Hlátur í þingsal.] einnig fjölmiðlamenn sem hlusta á þessar umræður. [Kliður í þingsal.]

Heimild nr. 6.18 í fjáraukalögunum gengur út á það að lagt er til að veittar verði 1.230 millj. kr. vegna fyrirhugaðra kaupa ríkisins á landi og jarðhitaauðlind Kalmanstjarnar og Junkaragerðis á Reykjanesi. Með kaupunum verður sú jarðhitaauðlind sem nýtt er af virkjuninni öll í eigu ríkisins.

Hitaveita Suðurnesja og sveitarfélögin á Suðurnesjum gerðu með sér samkomulag 1999 um að Hitaveita Suðurnesja mundi kaupa af sveitarfélögum það land og þau jarðhitaréttindi sem fylgdu landspildu sem sveitarfélögin höfðu áður keypt af Oddi Ólafssyni og Katli Ólafssyni með kaupsamningi árið 1976. Þá var um að ræða landspildu úr jörðunum báðum upp á 63–70 hektara og voru 63 millj. kr. borgaðar fyrir. Þar með fóru endurgjaldslaus afnot af því svæði sem á er minnst úr höndum þessara aðila.

Ég ætla að benda á það, frú forseti, að systir hæstv. fjármálaráðherra og mágur hans eiga 16,46% í hvorri jörð. Því hljóta að vakna upp pólitískar spurningar þegar fjáraukalögin eiga að afgreiðast hér í dag. Hvaða hagsmuni er verið að vernda? Er verið að kaupa heim réttindi? Er þetta svipað og að mega ekki leggja veg fyrir vestan vegna þess að þrír sumarbústaðaeigendur neita að afhenda Teigsskóg til (Forseti hringir.) vegagerðar? Þetta eru upplýsingar sem ég taldi rétt að kæmu hér fram. (Gripið fram í.)