140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

samningar um sölu Byrs.

[16:13]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. 3. júní 2009 var sagt í þessum ræðustól að það væri alls ekkert verið að semja um Icesave-málið. 5. júní kom hæstv. fjármálaráðherra hins vegar með samninga varðandi Icesave og sagði að þetta væru glæsilegir samningar.

Ég velti fyrir mér hvað það er við þessa samninga sem þurfti að bíða með þar til á elleftu stundu. (Gripið fram í.) Hvers vegna var þingmönnum ekki veittur aðgangur að samningunum fyrr? (Gripið fram í.) Hvernig stendur á því, þrátt fyrir að hæstv. fjármálaráðherra og aðrir máttu vita það að þingmenn hafa kallað eftir gögnum um þetta mál, spurst fyrir um það og óskað eftir skýrslum, eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur gert, um þennan gjörning allan?

Hvað er eiginlega í þessum samningi? Ég er ekki búinn að fá tækifæri til að lesa hann. Hvað er það í samningnum sem þurfti að bíða með þangað til á elleftu stundu? Ég vil hvetja hæstv. forseta (Forseti hringir.) til að grípa inn í þetta mál.