140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

samningar um sölu Byrs.

[16:16]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir kom hér upp áðan og taldi að við værum öll fædd í gær. Ég vil upplýsa að ég er ekki fædd í gær, þetta er skrýtinn málflutningur úr þessum ræðustóli. En ég er hér með starfsáætlun þingsins og ég skil ekki hvers vegna ekki er hægt að semja um það milli þingflokksformanna og forseta þingsins að þessi umræða frestist fram til loka nóvember.

Þingfundir hefjast aftur 28. nóvember. Það eru nefndadagar í næstu viku. Hvaða mál væri til þess fallið að fara í nefnd og fá faglega umfjöllun, með hinar nýju upplýsingar sem komu í morgun í þessum trúnaðargögnum, frekar en það mál sem á að klára hér í dag?

Frú forseti. Ég fer fram á að forseti þingsins og forsætisnefnd taki þessa ósk til athugunar. Forseti á að vera forseti allra þingmanna en ekki forseti ríkisstjórnarflokkanna. Ég minni á að það er forseti þingsins (Forseti hringir.) sem setur mál á dagskrá, en ekki ríkisstjórnin.